Opnunarmynd hátíðarinnar: The Diary of a Teenage Girl

Við kynnum með stolti opnunarmynd Stockfish 2016, en það er myndin The Diary of a Teenage Girl. Teiknarinn Sara Gunnarsdóttir sem gerði teikningar í myndinni verður einnig gestur hátíðarinnar.

diary_teenage_girl_poster (unofficial)Mynd­in ger­ist í San Francisco á átt­unda ára­tugn­um og seg­ir frá hinni 15 ára Minnie Goetz sem er upptekin af kynlífi og verður heltekin af kærasta móður sinnar eftir að hún sefur hjá honum. Minnie hefur áhuga á að vera teikn­ari og er Sara í stóru hlut­verki í mynd­inni því teikn­ing­ar henn­ar birt­ast mikið á skján­um sam­hliða leikn­um og setja mark sitt á mynd­ina. Marielle Heller leikstýrir myndinni og var hún nýlega tilnefnd til DGA-verðlauna í vik­unni (Directors Guild of America). Með aðalhlutverk fara Kristen Wiig, Alexander Skarsgård og nýstirnið Bel Powley sem hefur vakið mikla athygli fyrir leik sinn í myndinni.

Sara Gunnarsdóttir

Sara Gunnarsdóttir

Sara ólst upp í Hafnarfirði en hefur búið í Bandaríkjunum undanfarin ár þar sem hún stundaði nám í tilraunakenndri teiknimyndagerð (e. experimental animation) við CalArts-háskólann í Kaliforníu og útskrifaðist þaðan með MFA-gráðu árið 2012. Hún er núna búsett í New York og er að vinna að heimildamynd sem er að mestu teiknuð ásamt leikstjóranum Árna Sveinssyni og framleiðandi Hrúta, Grímari Jónssyni.

Myndin var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í fyrra og hefur unnið til margra verðlauna. Á vefmiðlum hefur myndin fengið góðar einkunnir, en á imdb er hún með 7,0/10, 87/100 á Metacritic og 94% á Rotten Tomatoes. The Diary of a Teenage Girl er frábær mynd sem enginn ætti að láta framhjá sér fara og fer Íslandsfrumsýning myndarinnar fram á opnunardegi Stockfish 2016, þann 18. febrúar.