Sigurður Sverrir Pálsson kvikmyndatökumaður heiðraður á Stockfish

Einn af heiðursgestum Stockfish er enginn annar en kvikmyndatökumaðurinn Sigurður Sverrir Pálsson. Stockfish mun á hverri hátíð heiðra einn íslenska kvikmyndagerðarmanninum í flokkinum Bíóklassík og Sigurður Sverrir ríður á vaðið.

Sigurður Sverrir mun ræða verk sín og sitja fyrir svörum eftir sýningu þriggja mynda sem hann filmaði. Myndirnar eru Land og synir (1980), Tár úr steini (1995) og Kaldaljós (2004). Umræðum stýrir Ásgrímur Sverrisson.

Sigurður Sverrir nam heimspeki við Háskóla Íslands og síðan kvikmyndagerð með sérstaka áherslu á kvikmyndatöku í London School of Film Technique, þar sem hann útskrifaðist 1969. Hann réðst síðan til Sjónvarpsins og starfaði þar um árabil sem myndatökumaður, klippari og upptökustjóri. Auk þess skrifaði hann í mörg ár um kvikmyndir fyrir Morgunblaðið.

Árið 1977 stofnaði hann kvikmyndafélagið Lifandi myndir ásamt félögum sínum Erlendi Sveinssyni og Þórarni Guðnasyni. Saman hafa þeir unnið fjölda stórra heimildamynda og má þar meðal annars nefna Verstöðina Ísland, Silfur hafsins, Lífið er saltfiskur og Íslands þúsund ár, en allar þessar myndir fjalla á einn eða annan hátt um sögu sjávarútvegs á Íslandi. Einnig gerðu þeir saman Drauminn um veginn, heimildamyndabálk í fimm hlutum þar sem Thor Vilhjálmssyni er fylgt eftir um Jakobsveginn svokallaða á Spáni.

Enginn íslenskur myndatökumaður hefur skotið jafn margar bíómyndir og Sigurður Sverrir, eða alls fimmtán talsins. Meðal annarra mynda hans eru Punktur, punktur komma strik, Útlaginn, Eins og skepnan deyr, Sódóma Reykjavík, Benjamín dúfa og Ikingút.

Sigurður Sverrir hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín, bæði heima og erlendis, meðal annars Edduverðlaunin 2004 fyrir kvikmyndatöku á Kaldaljósi.

Fréttir

Stockfish one of 30 “Best Must-Attend Global Festivals!”

Lesa meira

Sigurvegari Sprettfisks!

Lesa meira

Síðustu dagar Stockfish

Lesa meira
Skoða eldri fréttir

Styrktaraðilar