Um hátíðina

Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival verður haldin dagana 1.-11. mars 2018 í Bíó Paradís.

Markmið

Markmið hátíðarinnar er að efla íslenska kvikmyndamenningu á breiðum grundvelli. Á meðal gesta verða þekktir verðlaunaleikstjórar og aðrir alþjóðlegir kvikmyndagerðarmenn. Áhersla verður lögð á að sýna það nýjasta úr kvikmyndagerð heimsins og þá verður sérstök áhersla lögð á tengslamyndun íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna.

Búin til af fagfólki í kvikmyndagerð

Hátíðin er samstarfsverkefni allra hagsmunaaðila í kvikmyndageiranum á Íslandi. Markmiðið með hinni endurvöktu hátíð er að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands. Allt kapp verður lagt á að starfrækja Stockfish Film Festival á faglegan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt með stjórn skipaðri úr fagfélögum kvikmyndaiðnaðarins.

Sprettfiskur

Á hverju ári heldur hátíðin stuttmyndakeppnina Sprettfiskinn. Verðlaunin verða afhend í þriðja sinn árið 2017 en alls munu fimm til sex stuttmyndir verða valdar til sýningar á hátíðinni. Verðlaunaafhendingin fer fram í lokahófi hátíðarinnar.

Kvikmyndahátíð Reykjavíkur endurvakin

Það er sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna, Bíó Paradís, sem stendur fyrir hinni endurvöktu hátíð. Stockfish Film Festival er hátíðin ekki haldin í hagnaðarskyni.

Þótt þetta sé önnur hátíðin sem haldin er með þessu nafni á hátíðin sér dýpri rætur –Kvikmyndahátíð Reykjavíkur er endurvakin undir nýju nafni. Kvikmyndahátíð Reykjavíkur var síðast haldin árið 2001 og var upphaflega sett á laggirnar árið 1978.

Bransinn

Hátíðin mun bjóða upp á fyrirlestra og vinnustofur með það að markmiði að efla þekkingu og tengsl milli kvikmyndagerðarmanna og kvikmyndaáhugamanna erlendis og hérlendis. Meðlimir þeirra fagfélaga sem standa að hátíðinni geta fengið Industry Pass á sérstökum afslætti í gegnum félagið þeirra.

Fjölmiðlar

Allir sem starfa í fjölmiðlum eru velkomnir á hátíðina. Hægt er að sækja um Press Pass með því að senda póst á press@stockfishfestival.is með nafni, nafni fyrirtækis og stuttri lýsingu.