Barnapía og lifandi borðspil á Midnight Madness - Stockfish Film Festival

Barnapía og lifandi borðspil á Midnight Madness

3/12/2022

Í ár verða tvær myndir sýndar á Midnight Madness. Annars vegar Babysitter sem er gamanmynd með hryllingsívafi og hins vegar Murder Party sem fjallar um hæfileikaríkan arkitekt sem tekur að sér nýtt verkefni en endar í lifandi borðspili þar sem hún er að rannsaka morð á yfirmanni sínum. 

Í Babysitter eftir Moniu Chokri, er hinum miðaldra Cédric vikið úr vinnu eftir að hafa kysst blaðakonu, ölvaður, í beinni útsendingu. Fastur heima með konu sinni Nadine og órólegu barni, ákveður Cédric að gerast meðhöfundur bókar með bróður sínum, þar sem þeir biðjast afsökunar á kvenfyrirlitningu sinni. Inn í söguna kemur þá Amy, dularfull og frjálsleg ung barnapía sem neyðir þríeykið til þess að takast á við erfiðar tilfinningar á sama tíma og hún snýr lífi þeirra á hvolf.

Leikkonan og leikstýran Monia Chokri

Frá því hún útskrifaðist frá Conservatoire d’art dramatique árið 2005 hefur Monia Chokri tekið þátt í fjölmörgum uppsetningum á leiksviði. Í sjónvarpi hefur hún meðal annars leikið í „Les rescapés” og „Nouvelle adresse”. Hennar fyrsta hlutverk á hvíta tjaldinu var í „Heartbeats” eftir Xavier Dolan og nýverið lék hún í „Les Affamés” eftir Robin Aubert. Fyrsta mynd hennar í fullri lengd sem leikstýra var myndin „A Brother’s Love”, sem hlaut Un Certain Regard Coup de Coeur  verðlaun á Cannes kvikmyndahátíðinni 2019. Babysitter er önnur mynd hennar í fullri lengd og hún leikur sjálf í myndinni ásamt Nadiu Tereszkiewicz og Patrick Hivon.

Konur uppspretta illsku- og skelfingar 

Líkt og fyrsta mynd hennar er Babysitter einnig tekin upp á filmu. „A Brother’s Love” var skotin á 16mm filmu en Babysitter á 35mm. „Fyrir mér jafnast ekkert á við áferðina sem fæst með því að nota filmu. Þetta er spurning um sjónarhorn og stíl.“ Notkun filmunnar ýtir undir dularfullt og „vintage“ útlit myndarinnar. Chokri vildi einnig heiðra hrollvekjuna sem kvikmyndagrein, sem hefur lengi þróað með sér sérkennilegt sjónarhorn þegar kemur að konum. „Hryllingsmyndir sjöunda, áttunda, níunda og tíunda áratugarins hafa ávallt sýnt konur á sama hátt – þær eru nánast alltaf uppspretta illsku og skelfingar.“ Samkvæmt henni er Babysitter gamanmynd sem notar ákveðin atriði hryllingsmynda. „Hryllingurinn kemur út frá kvenpersónunum vegna þess að þær eru valdamiklar. Það er þetta kvenlega vald sem hræðir fólk.“

Byggð á samnefndu leikhúsverki

Myndin er aðlögun samnefnds leikhúsverks Catherine Léger. Chokri vissi að Léger væri að leita eftir manneskju til að hjálpa henni að koma verkum sínum yfir á hvíta tjaldið og setti sig í samband við hana. Áður en þær hittust fór Chokri að sjá leikritið hennar, Babysitter. Henni þótti það „fjalla vel um þá hljóðlátu reiði og þann uppbyggða pirring sem síðar yrði talað um sem #metoo hreyfinguna.” Einnig sagði hún að „Catherine sýndi fram á hinn almenna kvíða sem menn og konur upplifa í dag, á meðan þau endurskilgreina kynjahlutverk sín, bæði félagslega og persónulega.“

Miskunnarlaus húmor

 „Húmor hennar er miskunnarlaus – hún hlífir engum, en hún hefur ávallt skarpt auga,” segir Chokri um Catherine. Henni líkar hvernig persónurnar segja hluti við hvora aðra sem þær meina ekki. „Í raunveruleikanum… þá er ertu með tilhneigingu til að draga úr því sem þér í raun og veru finnst. Það skapar lög sem gera persónurnar dýpri og útfærðari.“ Hún bendir einnig á hvernig persónurnar eru hvorki algóðar né alslæmar. Þær þurfa allar að takast á við sínar eigin þráhyggjur og taugakvilla. „Það er nálægt raunveruleikanum, og þó ég hafi gefið myndinni skáldlegt yfirbragð, þá er auðvelt að tengja við persónurnar.“ 

Murder Party

Murder Party eftir Nicolas Pleskov

Murder Party er fyrsta myndin í fullri lengd sem Nicolas Pleskov leikstýrir, en hann er einnig handritshöfundur hennar ástamt Elsu Marpeau. Áður hefur hann gert þrjár stuttmyndir. Önnur mynd hans, „Zoo“, vann New Visions verðlaunin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Katalóníu árið 2013, og hlaut tilnefningu til Golden Horseman verðlaunanna á Kvikmyndahátíðinni í Dresden árið 2014. 

Lifandi borðspil

Í Murder Party fylgjum við Jeanne; hæfileikaríkum arkitekt sem tekur að sér nýtt verkefni: Að endurnýja hið glæsilega Daguerre höfðingjasetur sem er í eigu sérkennilegrar fjölskyldu úr borðspilaveldinu. Þegar húsráðandinn og ættfaðirinn, César, finnst látinn liggja allir undir grun. Skyndilega breytist verkefni Jeanne í lifandi borðspil, með það að markmiði að afhjúpa morðingjann.

Í þessari kómísku spennumynd má finna leikborð í raunstærð og sérkennilega karaktera. Fjölskyldufaðirinn, César (Eddy Mitchell), er stofnandi risastórs borðspila fyrirtækis. Jeanne Chardon Spitzer (Alice Pol), er ungur arkitekt sem kemur inn í heim Daguerre fjölskyldunnar til þess að aðstoða við endurbætur setursins. Þegar fjölskyldufaðirinn er myrtur á dularfullan hátt dregst hún ósjálfrátt inn í ráðgátuna. Hún neyðist til að leita að vísbendingum, leysa alls kyns próf og þrautir, á sama tíma og hún reynir að afhjúpa morðingjann.

Aðalleikonan Miou-Miou

Hin margverðlaunaða leikkona, Miou-Miou, fer með hlutverk Joséphine Daguerre. Miou-Miou hefur hlotið tilnefningu til César verðlaunanna tíu sinnum sem besta leikkona, en hún vann flokkinn árið 1980 fyrir hlutverk sitt í „La Dérobade”. Hún og Eddy Mitchell hafa leikið saman nokkrum sinnum áður. Hún fór fögrum orðum um hann í nýlegu viðtali við Femme Actuelle, en hún sagði að henni liði líkt og þau væru par. „Hann er svo góður… ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir honum.” Þegar hún var spurð að því hvernig það hefði verið að vinna með Nicolas Pleskov sagði hún að þeim hafi strax komið vel saman og að Murder Party væri alfarið hans sýn; „Eitthvað alveg sérstakt.”

Báðar myndir verða til sýningar á Midnight Madness á hátíðinni í ár.