Stockfish frumsýnir – Eins og Málverk eftir Eggert Pétursson. - Stockfish Film Festival

Stockfish frumsýnir – Eins og Málverk eftir Eggert Pétursson.

3/8/2020

Frumsýning á íslenskri heimildarmynd á Stockfish þar sem leikstjóri myndarinnar Gunnlaugur Þór Pálsson situr fyrir svörum eftir sýningu myndarinnar.

Gunnlaugur leikstýrði nú seinast þáttum um hnattræna hlýnun Jöklaland: Veröld breytinga sem kom út árið 2016. Nú tekst hann enn og aftur á við íslenska náttúru en í þetta skiptið einblínir hann á áhrif náttúru á menningu og mannlíf, en ekki öfugt. 

Kvikmyndin fjallar um Eggert Pétursson og verk hans en hann er einn af helstu samtímalistamönnum landsins. Eggert lýsir eigin málverkum og sköpunarferli sem hann tengir mikið við íslenska náttúru. Áhorfendur njóta einnig leiðsagnar Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, grasafræðings, sem fléttar saman eiginleikum íslenskrar náttúru og upplifun okkar á verkum Eggerts. 

„Það er engin ein rétt upplifun við myndina, maður horfir á hana í tíma. Það er svo mikið af smáatriðum, maður sér aldrei eina mynd heldur þarf alltaf að koma aftur og uppgötva eitthvað nýtt.  Það er eins með náttúruna en munurinn er auðvitað sá að þetta er tilbúin náttúra, hún er ekki raunveruleg.“

Þetta segir Eggert í viðtali við Rúv fyrir i8 sýningu sem hann var með árið 2017. 
En kvikmyndin skartar ekki eingöngu sjónrænni fegurð í formi íslenskrar náttúru og myndlistar, þar sem Atli Örvarsson semur tónlist fyrir kvikmyndina og SinFang einnig. Atli Örvarsson hefur samið tónlist fyrir myndir á borð við Hrútar, Blóðberg, The Mortal Instruments: City of Bones, sem og þáttaseríur eins og  Law & Order: LA og Hraunið. En Sin Fang gaf út plötuna Sad Party í fyrra. Þannig nær myndin aukinni dýpt á íslenska listamenningu með tónum, gróðri og málverkum.