Karim Ainouz - Stockfish - Invisible life

Leikstjórinn Karim Aïnouz mætir á Stockfish með verðlaunamynd sína, Invisible Life!

2/19/2020

Stockfish kynnir með stolti að hinn margverðlaunaði leikstjóri, handritshöfundur og sjónlistamaður Karim Aïnouz verður einn af gestum hátíðarinnar í ár. Hann fylgir eftir mynd sinni “Invisible Life” sem vann Un Certain Regard verðlaunin á Cannes 2019. Myndin hefur auk þess hlotið yfir 27 tilnefningar á alþjóðlegum hátíðum og þar af unnið til 14 verðlauna.

Invisible life er byggð á skáldsögunni “The Invisible Life of Eurídice Gusmão” eftir Martha Batalha. Sagan hafði djúpstæð áhrif á Karim þar sem svo margt í sögunni minnir hann á móður hans og ömmu sem báðar voru einstæðar útivinnandi mæður. Í viðtali við Variety á síðasta ári lýsir hann þessu frekar:

„Það hefði verið svo mikilvægt ef fólk sem hitti móður mína hefði vitað hvað hún þurfti að ganga í gegnum. Bæði hún og amma mín unnu úti. Þegar ég las bókina upplifði ég svo sterkt, vá, loksins er einhver sem talar um það hvernig lífið var fyrir konur á þessum tíma, ekki bara í Brasilíu heldur líka annars staðar í heiminum. Ég vildi votta móður minni og hennar kynslóð virðingu mína með gerð þessarar myndar.“

Sagan hefst um 1950 og spannar nokkra áratugi í lífi systra sem stíað var í sundur af föður þeirra þegar þær eru rétt komnar yfir tvítugt. Sannfærðar um að þær búi í sitthvorri heimsálfunni, ímynda þær sér að hin systirin lifi betra lífi. Raunin er hins vegar sú að árum saman hafa þær búið í sömu borginni og þráð að finna hvor aðra.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur myndi hlotið fjölda verðlauna og mikið lof. Bæði fyrir einstaka túlkun og djúpstæðan skilning á aðalsöguhetjunum og dramatíska útfærslu leikstjórans.