Leikstjóri Tolkien, Dome Karukoski, staðfestir komu sína á Stockfish! - Stockfish Film Festival

Leikstjóri Tolkien, Dome Karukoski, staðfestir komu sína á Stockfish!

2/26/2020

Finnski leikstjórinn Dome Karukoski hefur staðfest komu sína á Stockfish með mynd sinni Tolkien. Meðal stjarna sem prýða myndina eru Nicholas Holt (Mad Max, Xmen) sem leikur höfundinn á yngri árum og Lily Collins (To the Bone, Rules Don’t Apply)

Eins og flestir vita þá skapaði J.R.R. Tolkien stórkostlegan fantasíu heim fyrir sögur sínar Hobbitan og hina margrómuðu Hringadrottinssögu. Báðar fengu frábærar viðtökur í kvikmyndaútfærslu Peter Jackson sem og teiknimyndaútgáfa Ralph Baski. Þessa stundina stendur líka yfir framleiðsla á nýjum sjónvarpsþáttum á vegum Amazon streymisveitunnar. 

Sögur Tolkien hafa því verið vinsælt viðfangsefni ýmissa miðla en höfundurinn sjálfur og saga hans hafa ekki verið eins mikið í sviðsljósinu. Karukoski vildi beina sjónum sínum að Tolkien ungum og þá ekki bara mótun hans sem höfundar og uppruna hinna víðfrægu sagna heldur líka reynslu hans í seinni heimsstyrjöldinni og ástinni sem mótaði líf hans. 

Áhorfendur munu fylgjast með Tolkien stofna félag með samnemendum sínum í kringum sameiginlega ástríðu þeirra á bókmenntum og hvernig ástir tókust með honum og Edith Mary Bratt. Einnig er farið inn á hvernig vaxandi áhugi hans á tungumálum verður kveikjan að hinum víðfrægu goðsögnum. 

Það er ekki lítil áskorun að gera ástsælum höfundi eins og Tolkien skil sem á svo stóran og dyggan aðdáendahóp. Margir hafa kynnt sér sögu hans og gert sér sínar hugmyndir um ævi hans út frá heimildum úr ólíkum áttum. Það er því jákvætt að reynslumikill leikstjóri eins og Dome Karukoski skuli hafa tekið verkið að sér en hann hefur hlotið alls 21 verðlaun og 17 tilnefningar fyrir fyrri kvikmyndaverk sín. 

Meðvitaður um hversu stór áskorun það er að fjalla um líf Tolkien ákvað Karukoski að taka fyrir yngri ár höfundarins. Karukoski hefur sagt að honum hafi fundist hann eiga meira sameiginlegt með höfundinum ungum og getað þar gert honum betri skil. Báðir ólust t.d. upp án föðurs og upplifðu sig utanvelta.

Karukoski er þó ófeiminn að fylla upp í eyðurnar svo sagan flæði vel fyrir áhorfendur á sama tíma og hann reynir að vera eins trúr viðfangsefninu og mögulegt er. Realísk frásögnin gefur þó líka innsýn inn í stórkostlegt hugarflug höfundarins áður en Hringadrottinsaga er fullmótuð. 

Karukoski er sjálfur mikil aðdáandi Tolkien sem markað hefur útfærslu hans en þó ekki þannig að það hái frásögninni. Aðdáendur Karukoski og/eða Tolkien fá einstakt tækifæri til að spyrja leikstjórann enn frekari sprurninga eftir sýningu myndarinnar í Bíó Paradís þann 13. Mars. Tryggið ykkur miða hér.