Little Kingdom – alheimsfrumsýnd á Stockfish! Slavnesk, Íslensk framleiðsla

3/23/2021

Little Kingdom sem meðal annars er framleidd af Loki Film í eigu Sæmundar Norðfjörð verður alheimsfrumsýnd á Stockfish þann 12. Apríl. Tónlist myndarinnar er samin af íslenska tónskáldinu Valgeiri Sigurðssyni. 

Little Kingdom er alþjóðlegt samstarfsverkefni en að framleiðslu myndarinnar kemur fólk frá níu löndum: Slóvakíu, Íslandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Króatíu, Tékklandi, Ungverjalandi og Austurríki. Myndin er byggð á leikverkinu EPIC og er sögusviðið Slóvakía árið 1944. Ung kona að nafni Eva vinnur í verksmiðju sem er í eigu hrokafuls miljónamærings. Áræðir konan sér að láta lítið fyrir sér fara og lifa af þar til eiginmaður hennar snýr aftur heim úr seinni heimsstyrjöldinni. Einn daginn birtist hann svo eftir að hafa yfirgefið hersveit sína í von um að hann og Eva geti haldið áfram með sitt fyrra líf. En þá er allt breytt.

Myndin er tekin í gamalli verksmiðju í slavneskri sveit en ákveðið var að gera myndina á ensku til að skapa alþjóðlega stemningu og söguna aðgengilegri fleiri þjóðum þar sem sagan er bæði staðbundin og alþjóðleg í eðli sínu. Við skiljum öll ást og erfiðleika og eigum við öll sameiginlegt að vera fær um hið óhugsanlega til þess að lifa af. Til að ná fram þessum alþjóðlegu áhrifum voru bæði breskir og slavneskir leikarar fengnir í hlutverkin en þess má geta að leikaravalið var í höndum Nancy During sem meðal annars sá um leikaraval í James Bond, Casino Royal og Mission Impossible. Prufurnar voru langar og strangar og mikið lagt upp úr að finna rétta manneskju í hvert hlutverk. 

Eins og áður hefur komið fram þá er tónlist myndarinnar eftir Valgeir Sigurðsson en á meðal þeirra mynda sem hann hefur áður komið að eru Being John Malkovitch, Draumalandið og Drawing Restraint 9.