MONOS og THE PAINTED BIRD – fyrstu titlar Stockfish 2020 kynntir! - Stockfish Film Festival

MONOS og THE PAINTED BIRD – fyrstu titlar Stockfish 2020 kynntir!

1/27/2020

Monos og The Painted Bird eru báðar áhrifaríkar verðlaunamyndir sem eiga það sameiginlegt að hreyfa hressilega við áhorfendum á nýstárlegan máta. Gestir Stockfish eiga svo sannarlega von á magnaðri dagskrá í ár.

The Painted Bird, eftir leikstjórann Vacláv Marhhoul, hefur vakið mikla athygli fyrir áhrifaríka framsetningu.

Handritið er byggt á samnefndri skáldsögu Jerzy Kosiński, um ungan dreng af gyðingaættum sem sendur er af foreldrum sínum í fóstur til frænku sinnar í Austur Evrópu til að forða honum frá ofsóknum á hendur Gyðinga. Stuttu síðar fellur frænkan skyndilega frá og drengurinn endar á flakki um harðsvíraða veröld stríðshrjáðs lands.

Upptökutæknin sem notast er við er mjög sjaldgæf í dag og segir Vacláv, leikstjóri myndarinnar, þetta um ástæður þess: “Við skutum myndina á 35mm í hlutföllunum 1:2.35 á svart hvíta filmu því það er svo tilfinningaríkt format. Ekkert annað format getur fangað af svo mikilli nákvæmni bæði fegurð og ljótleika þess sem birtist á skjánum.”

Kólumbíska kvikmyndin Monos eftir leikstjórann Alejandro Landes er einnig stríðsdrama sem hefur ekki síður vakið athygli og stillir einnig saman barnungum persónum í stríðshrjáðu umhverfi.

Sagan fjallar um hóp skæruliða sem vart eru komnir af barnsaldri. Þeir hafa í haldi gísl og sitja um hann vörð á fjarlægum fjallstindi í Kólumbíu. Óvænt launsátur verður til þess að þeir þurfa að flýja inn í frumskóginn þar sem hremmingar verða þess valdandi að rækilega hriktir í stoðum hópsins og grefur undan upprunalega markmiði hans.

Alejandro rýnir í kaótíska stríðsþoku frá sjónarmiði unglinga og nýtir til þess bæði vana og óvana barnunga leikara sem saman skapa grimmilegt og óútreiknanlegt umhverfi þar sem allt getur gerst. Jafnvel friður.

Alejandro leikstjóri myndarinnar hefur þetta segja um hvað kveikti neistann að tilurð myndarinnar. “Borgarstyrjöld hefur geisað í Kólumbíu óendanlega lengi milli margra ólíkra hópa: mismunandi hópa málaliða, skæruliða, fíkniefnakónga, stjórnvalda og erlendra afla. Allt og allir virðast vera í hár saman og sú veika von um frið sem er í loftinu virðist aldrei verða að veruleika.

Bæði Monos og Painted Bird spila á strengi sakleysis og ofbeldis á óvægan máta en eru þó gjörólíkar myndir sem hafa báðar unnið til virtra verðlauna. Gestir Stockfish verða ekki sviknir af þessum tveimur. Fleiri spennandi titlar verða kynntir fljótlega.