Nunnudrama og parkour á Gaza-svæðinu - Stockfish Film Festival

Nunnudrama og parkour á Gaza-svæðinu

2/21/2022

Meðal gesta á Stockfish í ár eru portúgalski leikstjórinn David Bonneville og ítalski leikstjórinn Emanuele Gerosa. Þeir munu meðal annars vera með spurningar og svör um nýjustu myndir sínar, The Last Bath og One More Jump, sem sýndar verða á hátíðinni en báðar hafa þær hlotið verðlaun á hátíðum um allan heim.

„Myndirnar mínar endurspegla persónuleika minn og þess vegna eru þemun endurtekin – þau endurspegla áhyggjur mínar, ótta og þrár“ sagði David Bonneville í samtali í tengslum við Berlinale hátíðina en myndir hans fjalla oftar en ekki um flókin samskipti, þrár og langanir sem flokkast ekki undir almennt norm. Að The Last Bath undanskilinni er hann þekktastur fyrir stuttmyndir sínar Gypsy og Heiko en hann hefur einnig gert ýmis vídeóverk og örmyndir sem hafa hlotið góðar viðtökur og unnið til verðlauna.

The Las Bath

Tabú gjarnan viðfangsefni í myndum Bonneville

The Last Bath er fyrsta mynd Bonneville í fullri lengd en hún fjallar um Josefine, 40 ára nunnu, sem er í þann mund að fara að sverja heit sín þegar hún snýr aftur í heimabæ sinn til að vera við jarðarför föður síns. Þar hittir hún 15 ára frænda sinn sem hefur verið yfirgefin af móður sinni. Einangruð í gamla fjölskylduhúsinu byrja að myndast flóknar og óskilgreindar tilfinningar á milli þeirra. „Þetta er sterk hátíðarmynd sem ætti að skapa umræðu og andstæðar siðferðisafstöður til megin sambandsins“ segir meðal annars í umsögn á screendaily.com. Myndin hlaut verðlaun fyrir bestu mynd í fullri lengd og bestu leikkonu á Luso-Brazilian hátíðinni í Santa Maria Feira. Hún var einnig tilnefnd til Ingmar Bergman verðlaunanna í Gautaborg og var framlag Portúgal til Óskarsverðlaunana ásamt því að hafa hlotið tugi önnur verðlaun og tilnefningar. Með aðalhlutverk fara tvíburarnir Anabela og Margarida Moreira og hinn átján ára gamli Martim Canvarro.

One More Jump

Að sigrast á hindrunum er daglegt brauð barna á Gaza

One More Jump er önnur heimildarmynd Manu Gerosa í fullri lengd en hún hefur verið sýnd á hátíðum víða um heim og hlaut meðal annars PRIX EUROPA verðlaunin fyrir bestu evrópsku sjónvarpsheimildarmyndina árið 2020 í Þýskalandi. Fyrsta mynd hans, Between Sisters, hlaut einnig nokkur verðlaun og var sýnd á fjölda hátíða. One More Jump fjallar um þá Jehad og Abdallah, stofnendur Gaza Parkour hópsins, sem ólust upp saman á Gaza svæðinu. Þeir stofnuðu hópinn til að gefa yngri kynslóðum annan valmöguleika en stríðið en vegna ólíkra ákvarðana í lífinu skildu leiðir þeirra. Þrátt fyrir að hafa ekki talast við í nokkur ár virðast örlög þeirra þó speglast hvor í öðrum og nú, meira en nokkru sinni fyrr, þurfa þeir að finna leið til frelsis fyrir þá sem, eins og þeir, fæddust í fangelsi.

„Það eru náin táknræn tengsl milli „parkour“ og veruleikans sem fólk stendur frammi fyrir á hverjum degi á Gaza svæðinu“ segir Gerosa. Í myndinni notar hann „parkour“ sem sjónræna myndlíkingu fyrir aðstæðurnar á Gaza en það að sigrast á hindrunum er daglegt brauð í lífi ungra krakka á svæðinu. „Á hverjum degi taka þessir krakkar þátt í hættulegum áhættuatriðum, sem ögra hindrunum raunveruleikans sem þau fæddust inn í á táknrænan hátt. Þeir geta haldið fast fram, mistekist, reynt aftur eða ná að framkvæma hið fullkomna stökk en veggurinn sem aðskilur þá frá umheiminum mun alltaf vera þar, óyfirstíganlegur.“ Gerosa segir Palestínumenn neyðast til að lifa eins og aðkomumenn í eigin landi og séu því dæmdir til að lifa sem aðkomumenn hvert sem þeir koma. Í gegnum sögu Jehad og Abdallah segist hann vilja vekja fólk til umhugsunar um merkingu „frelsis“ fyrir fólk sem er fætt og hefur alist upp í fangelsinu sem Gaza svæðið er.  

Þrátt fyrir ólík form og efnistök eiga The Last Bath og One More Jump það sameiginlegt að vera spennandi og ögrandi verðlaunamyndir eftir leikstjóra sem veigra sér ekki undan flóknum umfjöllunarefnum og endurspegla þann fjölbreytta hóp kvikmyndagerðafólks sem tekur þátt í Stockfish hátíðinni í ár.