OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR í SPRETTFISK – stuttmyndakeppni Stockfish & KUKL! - Stockfish Film Festival

OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR í SPRETTFISK – stuttmyndakeppni Stockfish & KUKL!

1/22/2020

Kvikmyndagerðarfólk getur nú sent inn myndir í Sprettfisk, stuttmyndakeppni Stockfish. Nýbreytni er þetta árið að myndirnar þurfa ekki að vera Íslandsfrumsýndar heldur geta allar myndir sem voru opinberlega frumsýndar 2019 og síðar tekið þátt.

Markmið keppninnar er að vekja athygli á ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki og hvetja til frekari dáða með verðlaunum sem leggja grunninn að næsta verkefni.

Marzibil Sæmundardóttir framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að Stockfish hafi viljað gefa fleirum kost á þátttöku án þess að takmarka möguleika þeirra á öðrum hátíðum. „Það er mikilvægt fyrir upprennandi kvikmyndagerðarfólk að geta sýnt verk sín á fleiri en einni íslenskri hátíð. Þess fyrir utan viljum við verðlauna það besta sem var framleitt á síðasta ári en ekki takmarka okkur við ósýndar myndir.“

Sú stuttmynd sem valin verður besta mynd Sprettfisks fær í verðlaun eina milljón króna úttekt hjá Kukl í formi tækjaleigu á kvikmyndabúnaði en Kukl er stærsta tækjaleiga landsins sem sérhæfir sig í þjónustu við kvikmynda- og sjónvarpsgerð.

Sigurvegari síðasta árs var myndin XY eftir Önnu Karín Lárusdóttur og hefur hún síðan farið á níu kvikmyndahátíðir. Það er því til mikils að vinna og þess má geta að allar myndirnar sex sem valdar eru fara á ferðalag um Norður Ameríku og Kanada, með Taste of Iceland ári síðar, sem fulltrúar íslenskrar kvikmyndagerðar.

Inntökuskilyrði

Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og gerir hátíðin þá kröfu að myndirnar hafi komið út árið 2019 eða síðar. Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina, eða myndir sem skarta íslenskum leikstjórum eða framleiðendum. Myndin þarf auk þess að vera með enskum texta.

Umsóknir sendist á stockfish@stockfishfestival.is merktar: SPRETTFISKUR, fyrir 20. Febrúar ásamt meðfylgjandi upplýsingum:

  • Nafn myndar (ef hún ber ekki enskt heiti þarf það að fylgja með)
  • Nafn leikstjóra
  • Nafn framleiðanda
  • Lengd myndar
  • Stutt synopsis (á ensku og íslensku)
  • Útgáfudagsetning
  • Hlekkur á myndina ásamt lykilorði ef þarf
  • Tengiliðaupplýsingar