Pinocchio sem sýnd er á Stockfish tilnefnd til tvennra Óskarsverðlauna!

3/19/2021

Það verður sannkölluð veisla á Stockfish þetta árið. Pinocchio í leikstjórn Matteo Garrone er þriðja myndin á hátíðinni sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna. En myndin er tilnefnd fyrir bæði bestu búningahönnun og svo hár og förðun (vann bæði) enda er myndin einstakt konfekt fyrir augað. 

Hér er kannski klassísk saga á ferðinni sem hefur verið margsögð en í þetta sinn með ferskri nálgun og framsetningu. Myndin er tekin í einstöku landslagi Ítalíu og er sjónrænt mikið lagt í hvern einasta ramma. Þegar leikstjórinn var aðspurður af hverju að koma fram með enn eina Gosa myndina svarar hans meðal annars: ,,Gosi er svo rótgróinn í Ítalskri menningu. Sagan hefur verið þýdd á 240 tungumál og er enn ein af 50 mest seldu sögum veraldar. Allir þekkja Gosa. Ást mín á Gosa var ekki ást við fyrstu sýn en hann hefur fylgt mér síðan ég var strákur. Ég á ennþá fyrsta söguborðið “storyboard” mitt sem ég teiknaði og litaði sem barn sem var einmitt um Gosa. Það er ein verðmætasta minningin mín.”

Eins og áður segir er Pinocchio í leikstjórn Garrone tilnefnd til tvennra Óskarsverðlauna en í einvalaliði þeirra sem að myndinni standa má finna tvo fyrrum Óskarsverðlaunahafa. Mark Coulier, sem sér um útlitshönnun á persónum myndarinnar, hefur áður hlotið tvenn Óskarsverðlaun og svo er það enginn annar en Roberto Benigni sem fer með hlutverk Gepetto en hann hlaut Óskarinn fyrir leik sinn í “Life is Beautiful” árið 1997 sem hann einnig leikstýrði. Roberto hefur verið margverðlaunaður fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar í gegnum tíðina bæði sem leikstjóri, framleiðandi og leikari. Svona til að nefna eitthvað af hans einkar langa metorðalista þá var hann tilnefndur til Nóbels fyrir framlag sitt til bókmennta árið 2007.

Pinocchio er eins konar lokahnikkur leikstjórans á listrænu ferðalagi hans um ævintýraheiminn sem hann hóf með mynd sinni Tale of Tales árið 2015 sem skartaði stjörnum eins og Salma Hayek, Vincent Cassel, John C Reilly and Toby Jones.