Post Mortem – Fyrsta ungverska hryllingsmyndin í fullri lengd - Stockfish Film Festival

Post Mortem – Fyrsta ungverska hryllingsmyndin í fullri lengd

3/9/2022

Post Mortem, eftir leikstjórann Péter Bergendy, er fyrsta ungverska hryllingsmyndin sem gefin hefur verið út í fullri lengd. Ungur, ráfandi ljósmyndari endar í litlu ungversku þorpi um miðjan, nístingskaldan, vetur árið 1918 þar sem draugar hinnar sársaukafullu fortíðar ráða yfir. Því meira sem hann kynnist lífinu í þorpinu, því meira finnst honum sem hann verði að flýja það. 

Fjandskapur og skuggaverur

Eftir eyðilegginguna sem fyrri heimsstyrjöldin og Spænska veikin skildu eftir sig, eru óteljandi andar fastir í hinum mannlega heimi. Ljósmyndarinn Tomás, sem myndar fólk eftir andlát þess, ráfar inn í ungverskt þorp sem er undirlagt öndum. Þar hittir hann Önnu, litla munaðarlausa stúlku, og ef til vill undirmeðvitund sína. Hljóðin í nóttinni, þorpið sem er umvafið fjandskap, undarleg andlát og skuggaverur sem birtast í ljósmyndum hans verða til þess að hann yfirgefur þorpið undir eins. 

Einungis sýn næturinnar og fullvissa þess að draugar séu til, fá Tomás til að snúa aftur til þorpsins, þar sem samviska hans og þörf fyrir hasar vakna til lífsins. Hann ákveður að nýta þau verkfæri sem hann hefur til þess að rannsaka fyrirætlanir drauganna og finna leið til að losna við þá. Litla stúlkan fylgir spennandi og hættulegum könnunarleiðangri Tomásar, en þau finna engin svör. Á meðan stigmagnast eyðilegging andanna með hverju augnabliki.

Sálfræði hryllingsins

Post Mortem er fyrsta ungverska hryllingsmyndin í fullri lengd. Sem barn var leikstjórinn Péter Bergendy mikill aðdáandi hryllingsmynda. Þrátt fyrir að hryllingsmyndir hafi verið bannaðar undir sósíalískri stjórn Ungverjalands, þá tókst honum að sjá allar þær helstu. Þegar hann var sex ára gamall, árið 1970, fékk hann sína fyrstu myndavél að gjöf frá afa sínum. Upp frá því augnabliki varð kvikmyndin stór hluti af lífi hans.

Bergendy vildi, ásamt félaga sínum og skapandi framleiðanda myndarinnar, Gábor Hellebrandt, skapa draugasögu með sálfræðilegu ívafi en væri einnig nátengd Ungverjalandi. „Við endurvöktum drauga frá tímum mikils missis í ungversku samfélagi, í miðjum faraldri spænsku veikinnar í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar.“

Bergendy útskrifaðist upprunalega sem sálfræðingur og skrifaði lokaritgerð sína um sálfræðileg áhrif hryllings; „vegna þess að hryllingur segir okkur eitthvað mikilvægt um undirmeðvitundina, [hann] afhjúpar vinnuferli og vandamál hugans í hinu forna tungumáli mannlegra tákna og erkitýpa… það er gríðarlega spennandi.“ Það er von þeirra að áhorfendur fylgi þeim inn í þessa andlegu veröld og leyfi sögunni að snerta við djúpum lögum undirmeðvitundarinnar.

Margverðlaunaður leikstjóri

Bergendy var ritstjóri að ungverskri útgáfu tímaritsins „German Cinema Magazine“ um tíu ára skeið. Hann starfaði við fræðilegar rannsóknir fyrir Ungversku Kvikmyndastofnunina og einnig sem ritsjóri og leikstjóri í ungversku sjónvarpi. Undanfarin 25 ár hefur hann leikstýrt bæði ungverskum og alþjóðlegum auglýsingum, en margverðlaunaðar auglýsingar hans eru sýndar á heimsvísu.

Fyrsta mynd hans í fullri lengd var rómantíska gamanmyndin „Stop Mom Teresa!“. Hún kom út árið 2004 og hlaut mikla alþjóðlega viðurkenningu. Önnur mynd hans, „The Exam“, hlaut verðlaun í flokki nýrra leikstjóra á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago árið 2012 og spennutryllir hans, „Trezor“, var tilnefnd á Emmy verðlaunahátíðinni árið 2020. Hún er fyrsta ungverska sjónvarpsmyndin til að hljóta þá tilnefningu.