Promising Young Woman tilnefnd til 5 Óskarsverðlaun og sýnd á Stockfish

Promising Young Woman -Tilnefnd til 5 Óskarsverðlauna og sýnd á Stockfish!

3/17/2021

Við höldum áfram að kynna glæsilega dagskrá en Promising Young Woman í leikstjórn Emerald Fennell verður sýnd á hátíðinni. Ásamt 5 Óskars tilnefningum hefur myndin fengið 171 tilnefningu og 83 verðlaun út um allan heim. Uppfært: Myndin vann Óskar fyrir besta frumsamda handritið. Hægt er að kynna sér nánari lista hér.

Promising Young Woman er frumraun ensku leikkonunnar Emerald Fennell sem getið hefur sér gott orð fyrir leik sinn í The Danish Girl, Anna Karenina og þekktum sjónvarpsþáttaröðum á vegum BBC eins og Call The Midwife og The Crown. En hæfileikar hennar liggja greinilega ekki bara á leiklistarsviðinu því Emerald bæði skrifar og leikstýrir myndinni og geta fáir státað sig af þvílíkum viðtökum fyrir sína fyrstu mynd. Þau Óskarsverðlaun sem myndin er tilnefnd til eru: Besta mynd, besta handrit, besta leikkona í aðalhlutverki, besta leikstjórn og besta klippingin.  

Sagan fjallar um unga konu að nafni Cassie sem býr enn hjá foreldrum sínum þrátt fyrir að vera að nálgast þrítugt. Líf hennar virðist ansi lítilfjörlegt og tilbreytingarlítið við fyrstu sýn en á daginn starfar hún sem þjónustustúlka og skenkir ódýru kaffi í bolla gesta á lítilfjörlegu kaffihúsi. Á nóttunni breytist hún hins vegar í rándýr sem þræðir bari og næturklúbba uppástríluð í leit að mönnum sem nýta sér ástand ósjálfbjarga drukkinna kvenna. Cassie er leikin af Carey Mulligan sem er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni og hefur nú þegar landað 23 verðlaunum á öðrum hátíðum fyrir frammistöðu sína.

Promising Young Woman er sannkallað ofurkonu framlag inn í kvikmyndabransann þetta árið og er eins gott að tryggja sér miða því færri komast en vilja!