Frestur til innsendingar í Sprettfisk rennur út á morgun!

2/19/2021

Margar frambærilegar stuttmyndir hafa borist Sprettfisknum þetta árið og gaman að sjá hve mikil gróska var í grasrót kvikmyndagerðar á síðasta ári þrátt fyrir allar hömlur og bönn. Sköpunargáfan lætur ekki að sér hæða og finnur ávalt krafti sínum farveg. En það er enn tækifæri þar til á morgun, þann 20. febrúar, fyrir þá sem vilja senda inn sitt verk.

Dómnefndin er ekki af verri endanum í ár en nú er hún skipuð Marinu Richter sem er þekktur kvikmyndagagnrýnandi búsett í Vínarborg, Rúnari Rúnarssyni leikstjóra en hann leikstýrði meðal annars óskarstilnefndu stuttmyndinni Síðasti bærinn í dalnum auk kvikmyndanna Eldfjall, Þrestir og Bergmál. Síðast ekki en ekki síst er það hún Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi hjá Pegasus. Hún á langan feril að baki bæði sem framleiðandi og meðframleiðandi fyrir kvikmyndir og sjónvarp. T.d. sjónvarpsseríuna Hraunið og Lille Sommerfugl sem kom út í fyrra svo fátt eitt sé nefnt.

Ekki missa af umsóknarfrestinum. Það er til mikils að vinna fyrir kvikmyndagerðarfólk framtíðarinnar. Tækjaleigan Kukl leggur sigurvegara til eina miljón króna inneign í tækjaleigu sem ætti að nýtast vel fyrir næstu mynd. Frekari upplýsingar hér.