Teiknimyndasería úr smiðju Disney-höfunds í leikstjórn Íslendings - Stockfish Film Festival

Teiknimyndasería úr smiðju Disney-höfunds í leikstjórn Íslendings

2/25/2022

Teiknimyndaserían MyYear Of Dicks (2022) verður frums´ýnd á Stockfish en hún er skrifuð af bandaríska handrits- og metsöluhöfundinum Pamelu Ribon en hún er meðal handritshöfunda ýmissa stórra teiknimynda, til að mynda Disney-myndanna Moana og Ralph Breaks The Internet. Pamela og Sara munu sitja fyrir svörum eftir frumsýningu og svo verður einnig tækifæri til að heyra betur í Pamelu í Panelumræðum um nútímahandritsgerð á Bransadögum á Selfossi.

Ásamt því að hafa skrifað teiknimyndir og sjónvarpsþætti er Pamela er einnig metsöluhöfundur og hefur skrifað bæði teiknimyndasögur og skáldsögur. My Year Of Dicks er rómantísk gamansería sem fjallar um fimmtán ára unglingsstelpu í útjaðri Houston sem hefur sett sér það markmið að missa meydóminn en serían er aðlögun upp úr endurminningarbók hennar sem kom út árið 2017 og ber nafnið Notes To Boys: And Other Things I Shouldn‘t Share in Public.

Samstarf Pamelu og Söndru

„Ég vissi að ég vildi vinna með Söru um leið og ég sá teiknimyndir hennar“ segir Pamela en leikstjóri seríunnar er íslenski leikstjórinn og listamaðurinn Sara Gunnarsdóttir. Sara hefur leikstýrt bæði teiknimyndum og tónlistarmyndböndum ásamt því að hafa búið til listaverk (e. orginial artwork) fyrir bæði kvikmyndir og sjónvarpsþætti, þar á meðal kvikmyndina Diary Of a Teenage Girl (2015) eftir Marielle Heller og HBO heimildarseríuna The Case Against Adnan Sayed (2019). Sara er fædd og uppalin í Reykjavík og er með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands.

Hún er með MA gráðu í tilraunakenndum teiknimyndum frá CalArts í Kaliforníu en lokaverkefni hennar, teiknaða heimildarstuttmyndin „The Pirate of Love“, hlaut tilnefningu til akademísku nemendaverðlaunanna (e. Student Academy Awards). Verk hennar hafa jafnframt verið sýnd á MOMA nýir leikstjórar / nýjar kvikmyndir í New York, AFI Fest í Los Angeles og Telluride hátíðinni í Colorado.

Sara

Sara segist hafa unnið með heim unglingsstelpurnnar í gegnum allan feril sinn. Fyrsta stuttmynd hennar, „Sugarcube“ (2009) fjallar til að mynda um uppvöxt og fyrstu ástarsorgina.

Um ólgu unglingsárana segir hún: „Ég held að flestar konur horfi til baka til unglingsárana og sjái þær aðstæður sem þær voru í í öðru ljósi. Ég held að flestum okkur líði eins og við höfum lifað unglingsárin af. Við komum upp á yfirborðið hinum megin við unglingsárin, sumar ómeiddar, aðrar ekki.“ Hún segir að lýsingar Pamelu í Notes To Boys um ástir og kynlíf unglings einlægar og eitthvað sem margir geti tengt við. Sýn Söru á teiknimyndir hafa, að hennar sögn, alltaf einblínt á tilfinningar fólks og hún segir skrif Pamelu hafa opnað dyr að vitund unglingsins í sér á persónulegum grundvelli.

Einstakir hæfileikar fyrir að skapa nostalgísk og tímalaus augnablik

Hún segir jafnframt að teiknimyndir geri okkur kleift að sameinast sjónarhorni sögupersónunnar og setja okkur í spor hennar á nokkuð bókstaflegan hátt en við hönnun á þáttunum lagði hún áherslu á að byggja upp heim sem endurspeglar í senn þá tilfinningu sem fylgir því að líta til baka á unglingsárinn og að vera staddur þar akkúrat í augnablikinu. Hún leggur áherslu á náttúrulegan tón í teikningunum sem hún segir skapa rými sem ýti undir myndmálið og skapi áþreifanlega andstæðu milli sýn áhorfanda á atburði og innri viðbrögð persónunnar við þeim.

Rík áhersla á persónulega sköpun og tilfinningalega afhjúpun

Pamela segir Söru hafa sérstakt næmi fyrir sjónarhorni en hún segir að hún hafi sérstaka hæfileika þegar kemur að því að gera augnablik bæði nostalgísk og tímalaus í senn. Hún segir seríuna innihalda upptökur, raddir, myndir og fólk frá öllu æviskeiði sínu og að það sé sannarlega súrrealísk tilfinning að sjá þetta allt koma saman.

Pamela leggur áherslu á hið persónulega í verkum sínum en ásamt því að gefa út endurminningar hefur hún einnig haldið úti blogginu „pamie.com“ þar sem hún hefur meðal annars skrifað esseyjur á borð við „How I Might Have Become the Newest Urban Legend“ og „Barbie Fucks it Up Again“ sem fóru eins og eldur í sin um internetið. Eins og áður segir fjallar My Year of Dicks um Pam, fimmtán ára stelpu í Houston á tíunda áratug síðustu aldar, sem hefur einsett sér að missa meydóminn. Hún lifir og hrærist mitt á milli raunveruleikan og fantasíu með því að reyna kanna mismunandi týpur af strákum eins og gothara, hjólabrettakappa, indie-kvikmyndasnobbhana og fleiri, án þess að vera sett í straff af foreldrum sínum.

Pamela og Sara verða viðstaddar Stockfish

Pamela segir að í fyrri tíð, þegar hún hafi verið að byrja að segja þessar persónulegu sögur hafi hún oft verið spurð að því hvers vegna hún hafi ekki brennt blaðsíðurnar sem hún hafði skrifað sem afhjúpuðu tilfinningar hennar svona. Hún viðurkennir að það hafi tekið langan tíma fyrir hana að slaka á varnarstellingunum en það hafi á endanum tekist: „Eins og ég sagði þeim sem spurðu mig hvers vegna ég brenndi ekki hverja eina og einustu blaðsíðu – Hvers vegna ættum við að halda áfram að þykjast ekki hafa rétt svo komist út úr þessu öllu lifandi? Þessi mynd er fyrir alla þá sem héldu að þessir dagar myndu aldrei taka enda.“

Pamela Ribon verður einn af gestum Stockfish í ár en hún og Sara munu sitja fyrir svörum eftir frumsýningu þáttanna auk þess sem Pamela verður einn af þátttakendum í panelumræðum um nútíma handritsgerð á Bransadögum Stockfish á Selfossi.