Þrjár myndir á Stockfish í forvali fyrir Óskarinn - Stockfish Film Festival

Þrjár myndir á Stockfish í forvali fyrir Óskarinn

3/12/2021

Þótt að heimsfaraldur standi yfir og Stockfish verði með eilítið breyttu sniði í ár þá þarf enn meira til að ekki sé hægt að stóla á margverðlaunaðar hágæða myndir á hátíðinni. Því er vel við hæfi að ríða á vaðið við kynningu dagskrárinnar í ár með þremur margverðlaunuðum myndum sem allar eiga það sameiginlegt að hafa verið valdar í 15 mynda forval til óskarsverðlaunanna í flokknum besta alþjóðlega kvikmyndin.  

Myndirnar þrjár eiga það allar sameiginlegt að vekja með einhverjum hætti athygli á misskiptingu og óréttlæti í heiminum. Viljum við fyrst nefna “La Llorona” en hún er búin að sópa að sér bæði tilnefningum og verðlaunum. Alls 42 tilnefningar og þar af 15 verðlaun. Myndin er flokkuð sem hryllingsmynd en daðrar á sama tíma við töfraraunsæi þar sem fléttað er saman raunverulegum sögulegum atburðum og einni frægustu goðsögn Guatemala, La Llorona. 

La Llorona

Einn ábyrgðarmanna þjóðarmorða í Guatemala, Enrique hershöfðingi er leiddur fyrir réttarhöld og látin svara til saka. En þegar réttarhöldin eru dæmd ógild leysist vofa La Llorona úr læðingi þar sem hennar týnda sál vafrar um heim hinna lifandi með þeim afleiðingum að Enrique heyrir óp hennar um nætur. Áhugaverð nálgun á sögulegan atburð með því að flétta hann með hrollvekju ívafi en samt ekki, því hvað eru þjóðarmorð annað en hryllingur í sjálfu sér? 

Sun Children

Næst viljum við nefna kvikmyndina “Sun Children” sem kom út fyrir stuttu síðan en er samt sem áður komin með 5 verðlaun og aðrar 9 tilnefningar. Þar af tvenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum ásamt tilnefningu til Golden Lion. Myndin fjallar um háalvarlegt mál út frá sjónarhorni barnungra drengja sem gefa myndinni létta tóna inn á milli. 

Ali, 12 ára drengur sem vinnur hörðum höndum við að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Einn daginn er Ali treyst fyrir að sækja fjársjóð sem er falinn neðanjarðar. Til að komast í nálægð við fjársjóðinn skrá Ali og vinir hans sig í skóla sem ætlaður er fyrir götubörn nálægt staðnum sem fjársjóðurinn er falinn. Hinn kornungi leikari Roohollah Zamani hefur vakið mikla athygli sem upprennandi stjarna og vann til að mynda verðlaun fyrir leik sinn í myndinni á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. 

The Man Who Sold his Skin

Þriðja myndin á hátíðinni sem bíður tilnefningar til Óskars er “The Man Who Sold his Skin” sem bæði er skrifuð af og í leikstjórn Kaouther Ben Hania. Hefur myndin vakið heilmikla athygli, fengið tilnefningar og verðlaun, meðal annars fyrir handrit. 

Sam Ali er hvatvís ungur maður frá Sýrlandi sem flúði stríðsþjáð heimaland sitt til Líbanon. Þegar leið hans liggur svo til Evrópu til að setjast þar að með ást lífs síns ákveður hann að leyfa einum fremsta nútímalistamanni veraldar að húðflúra bak sitt. En sú ákvörðun að breyta bakinu í framúrskarandi listaverk á hins vegar eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir Sam og það sem átti að vera ávísun á frelsi reynist hið gagnstæða.