Ungar upprennandi meistaraleikstýrur áberandi á Stockfish í ár!

5/12/2021

Við fjölluðum um daginn um Emerald Fennell leikstýru Promising Young Woman en síðan er hún búin að vinna til Óskarsverðlauna fyrir besta upprunalega handrit. Hún er þó ekki eina unga kvennleikstýran með sína fyrstu mynd á hátíðinni því leikstjórar Babyteeth og Spring Blossom eru líka ungar konur sem eru að gera það virkilega gott fyrir sína fyrstu mynd. 

Spring Blossom er eftir frönsku leikstýruna Suzanne Lindon sem allt í öllu skrifar, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í myndinni verandi aðeins tvítug. Myndin fjallar um upplifun hennar á unglingsárunum. Aðspurð hvernig það er að bæði leikstýra og leika aðalhlutverkið í sinni fyrstu mynd hefur Suzanne þetta að segja: 

,,Að leikstýra og leika á sama tíma var alls ekki erfitt þar sem það kom aldrei neitt annað til greina hjá mér. Ég held að ástæðan sé sú að ég var að skapa verk sem er byggt á mér. Að skrifa, leikstýra og leika var því besta leiðin fyrir mig að túlka eitthvað sem er svo nærri mér. Það var bara svona sem ég vildi gera myndina. Ég hefði ekki getað gert myndina án þess að leika sjálf í henni og ég hefði ekki getað leikið í myndinni án þess að leikstýra henni. Sagan, karakterinn og allt var svo persónulegt, of persónulegt til að setja það í hendurnar á öðrum.” 

Sagan fjallar um hina 16 ára gömlu Suzanne sem finnur sig ekki í kringum jafnaldra sína. Á degi hverjum á leið í skólann gengur hún fram hjá gömlu leikhúsi. Einn daginn kynnist hún þar eldri manni sem hún verður heltekinn af. Þrátt fyrir aldursmuninn finna þau eitthvað í hvort öðru og verða ástfangin. 

Þriðja myndin sem er fyrsta mynd í fullri lengd eftir upprennandi leikstýru er Babyteeth eftir áströlsku leikkonuna Shannon Murphy. Shannon hefur getið sér gott orð sem sviðsleikstjóri í Ástralíu en Babyteeth var einmitt upprunalega skrifuð fyrir leikhús af leikkonunni og handritshöfundinum Rita Kalnejais. Þótti verkið svo myndrænt að ákveðið var að gera úr því kvikmynd.

Sagan fjallar í stuttu í máli um það hversu gott það er að vera á lífi og hversu langt við erum tilbúin að ganga fyrir ástina. Milla er ung stúlka með krabbamein sem býst ekki við að verða langlíf. Líf hennar tekur óvænta stefnu þegar hún verður ástfangin af Moses sem er smákrimmi og dópsali. Foreldrar Millu eru miður ánægð með sambandið en Milla finnur fyrir óþekktri lífsþrá sem fær hana til að lifa lífinu eins og enginn sé morgundagurinn. Þótt mikil óánægja ríki í fjölskyldunni með nýja tengdasoninn þá er lífsorkan hennar Millu svo smitandi að hún vekur hennar nánustu til umhugsunar um raunverulegan tilgang lífsins. 

Takmarkaður miðafjöldi á Babyteeth hér.

Takmarkaður miðafjöldi á Spring Blossom hér.