Verðlaunaðar gamanmyndir á Stockfish! - Stockfish Film Festival

Verðlaunaðar gamanmyndir á Stockfish!

2/6/2020

Þrjár gamanmyndir hafa verið valdar inn á hátíðina sem samtals hafa hlotið 39 tilnefningar árið 2019 og unnið til fjölda verðlauna. Þykir það heldur óvenjulegt fyrir gamanmyndir en ekki er mjög algengt að myndir í þeim flokki hljóti tilnefningar einhverra hluta vegna. Þessar þrjár eru því vel þess virði að sjá og hressa upp á hláturtaugarnar í leiðinni.

Extra Ordinary

Fyrst má nefna myndina Extra Ordinary eftir leikstjórana Enda Loughman og Mike Ahern. Salurinn hefur gjörsamlega hlegið frá upphafi til enda á sýningum til þessa. Sagan fjallar um skyggna konu sem starfar sem ökukennari en er hins vegar ekkert endilega hrifin af þeim hæfileikum sem hún er búin.

Hún ákveður þó að hjálpa ungri stúlku sem haldin er illum anda. Þykir handritið einstaklega vel skrifað og leikurinn frábær. Það er ekki að ástæðulausu sem myndin hefur tekið heim 10 verðlaun af 14 tilnefningum. Þar af tvenn áhorfendaverðlaun og nokkur sem besta myndin.

It Must Be Heaven

It must be heaven þykir einnig mikill hláturtaugakitlari en hún fjallar um palestínskan mann sem flýr heimaland sitt í leit að nýjum heimahögum. Svo virðist þó sem Palestína fylgi honum við hvert fótspor því hvar sem hann kemur er eitthvað sem minnir hann á heimalandið.

Það er verðlaunaleikstjórinn Elia Suleiman sem stendur á bak við myndina sem hefur hlotið alls 9 tilnefningar og þrenn verðlaun. Myndin vann meðal annars FIPRESCI Prize á Cannes.

Give Me Liberty

Síðast en ekki síst er það Bandaríska myndin Give me liberty eftir Kirill Mikhanovsky. Enn ein gamanmyndin með bunka af tilnefningum. Alls 13 tilnefningar og þar af 5 verðlaun.

Myndin fjallar um sjúkraflutningamann, í einni helstu aðskilnaðarborg Bandaríkjanna, sem stendur frammi fyrir snúinni ákvörðun þegar óeirðir brjótast út. Ákvörðun sem fólk, sem vill geðjast öllum og á erfitt með að segja nei, vill aldrei þurfa að standa frammi fyrir. En þetta tvennt á einmitt við um aðal söguhetjuna.

Þessar þrjár eru tilvalið tækifæri fyrir listræna kvikmyndaunnendur að draga hvern sem er með sér með sér í bíó.