Picture of Floria Sigismondi

Floria Sigismondi heiðursgestur Stockfish 2025

by

Sem dóttir ítalskra óperusöngvara var Floria nefnd eftir dívu úr óperunni Tosca eftir Puccini. Verk hennar sameina fagurfræði málaralistarinnar, súrrealisma og nákvæmlega útfærða heima, sem hún hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir á sviði tónlistarmyndbanda, ljósmyndunar, kvikmynda og auglýsinga.

Einstakur stíll Floriu sem einkennist af djörfum myndheimi, hefur gert hana að einum virtasta leikstjóra tónlistarmyndbanda í sögunni. Hún hefur gert myndbönd fyrir listamenn eins og Rihanna, Björk, David Bowie, The White Stripes og Christinu Aguilera. Myndband hennar frá 2023 fyrir Unholy með Sam Smith og Kim Petras hlaut fimm tilnefningar til MTV VMA, þar á meðal fyrir bestu leikstjórn og tónlistarmyndband ársins, og vann verðlaun á MTV EMAs, Junos og New York International Fashion Film Festival. Floria vann einnig MTV VMA verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins með Mirrors eftir Justin Timberlake (2013) og MTV EMA verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins með Untitled eftir Sigur Rós (2003).

Myndbönd Floriu fyrir Little Wonder og Dead Man Walking eftir David Bowie eru hluti af varanlegri safneign Museum of Modern Art (MoMA) í New York. Árið 2023 hlaut hún CAMERIMAGE-verðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistarmyndbanda og árið 2024 hlaut hún UKMVA Icon Award fyrir einstök áhrif sín á þetta listform.

Hvað kvikmyndir varðar skrifaði og leikstýrði Floria hinni vinsælu költ-klassík The Runaways, með Kristen Stewart og Dakota Fanning í aðalhlutverkum, auk þess sem hún leikstýrði The Turning, yfirnáttúrulegri hryllingsmynd sem framleidd var af Amblin, fyrirtæki Stevens Spielbergs. Í sjónvarpi hefur hún leikstýrt þáttum af The Handmaid’s Tale og American Gods.

Hún hefur sömuleiðis skapað sér nafn innan heims ljósmyndunar og verk hennar hafa verið sýnd samhliða listamönnum á borð við Cindy Sherman, Rebecca Horn, Vanessa Beecroft og Joel-Peter Witkin.

Í auglýsingagerð hefur Floria unnið verk fyrir vörumerki á borð við Ferrari, Bulgari, Mugler, Meta og Samsung. Hún ljósmyndaði og leikstýrði hún hinni margrómuðu seríu Great Performers: Horror Show, fyrir The New York Times Magazine, þar sem meðal annars Nicole Kidman, Daniel Kaluuya og Timothée Chalamet komu fram. Serían vann til gull- og silfurverðlauna á ADC Awards og gullverðlauna á SPD Awards.