Fréttir

Alþjóðleg frumsýning - A Fire In The Cold Season - Q&A

2/25/2020

Stockfish verður fyrst til að sýna myndina A Fire in the Cold Season utan heimalandsins Kanada. Justin Oakey leikstjóri myndarinnar verður viðstaddur frumsýninguna og tekur þátt í Q&A eftir sýningu. A Fire in the Cold Season fylgir svipuðu þema og fyrri myndir Justins en hann virðist einkar hugfanginn af sögusviði Nýfundnalands, sögur hans eru oftast dramatískar með dularfullu ívafi. Myndin fjallar um veiðimann og verðandi móður sem bindast óvæntum böndum þegar líkfundur gerir þau óvænt ábyrg fyrir skuldum hins látna. Þau þurfa fljótt að reiða sig hvort á annað er þau neyðast til að leggja á flótta undan harðsvíruðum útlögum. Framundan virðist ekkert öruggt nema blóðug örlög. Justin hefur haft mikla ástríðu fyrir því að segja sögur frá unga aldri. Kvikmyndaformið varð hans tjáningaleið eftir að hafa reynt fyrir sér í videogerð á unglingastigi í skóla. Þegar Justin vinnur með sögusvið Nýfundnalands vill hann vera eins sannur sögusviðinu og mögulegt er með því að sækja innblástur í þá sem eru honum næstir, bæði hvað varðar samtöl og myndrænar útfærslur. Eftir sýninguna er einstakt tækifæri fyrir kvikmyndaáhugafólk að hitta Justin og spyrja hann frekar út í verk hans. Meðal fyrri verka má t.d. nefna Riverhead (2016) sem vann People’s Choice Award á Charlotteetown kvikmyndahátíðinni 2017 og svo Jury Award á Nickel Independent kvikmyndahátíðinni sama ár. Fire in Cold Season heldur áhorfendum hugföngnum frá upphafi til enda.

H.P. Lovecraft og Nicholas Cage á Stockfish 2020!

2/24/2020

Þá eru það frábærar fréttir fyrir Lovecraft og Nicholas Cage aðdáendur en myndin Color Out of Space sem er byggð á sögu Lovecrafts með Nicholas Cage í aðalhlutverki verður Midnight Madness sýningin á Stockfish í ár. Color out of Space er leikstýrð af Richard Stanley sem snýr aftur í leikstjórastólinn eftir gott 20 ára hlé. Síðasta mynd sem kom út í hans leikstjórn var “Hardware” sem sló í gegn innan cult heimsins á sínum tíma. Richard ólst upp í Suður Afríku þar sem móðir hans las reglulega fyrir hann sögur eftir Lovecraft. Hann var sérstaklega hrifinn af Color out of Space en hún er líka sögð vera í uppáhaldi hjá höfundinum sjálfum sem hafði þó skrifað ófáar smásögur. Í viðtali við Los Angeles Times í fyrra sagði Stanley þetta: ““ég var einmanna, skrítinn krakki sem eyddi miklum tíma í að teikna allskonar skrímsli með crayon litum” segir Stanlay með bros á vör. Að hans sögn var það hans flótti frá vandræðum sem foreldrar hans áttu í sambandi sínu. Nokkrum árum seinna tók “Color Out of Space” við þessu sama hlutverki” Stanley skrifaði handritið ásamt Scarlett Amaris og saman ákváðu þau að setja söguna upp í nútímanum í stað þess tíma sem upprunalega sagan gerist á. Sú ákvörðun virðist ekki há útkomuninni né hrifningu Lovecraft aðdáenda því Color Out of Space vann bæði Besta myndin og áhorfendaverðlaunin á sérstakri Lovecraft kvikmyndahátíð í fyrra. Í stuttu máli fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina þá er sagan um Gardner fjölskylduna sem flyst úr borg í sveit til að öðlast friðsamara líf. Raunin verður þó allt önnur því í stað sveitasælu verður líf fjölskyldunnar að litríkri martröð eftir að lofsteinn lendir í garðinum þeirra. Við ráðleggjum þeim sem vilja koma á sýninguna að tryggja sér miða sem fyrst því það verður einungis ein sýning! Tryggðu þér miða hér.

Leikstjórinn Karim Aïnouz mætir á Stockfish með verðlaunamynd sína, Invisible Life!

2/19/2020

Stockfish kynnir með stolti að hinn margverðlaunaði leikstjóri, handritshöfundur og sjónlistamaður Karim Aïnouz verður einn af gestum hátíðarinnar í ár. Hann fylgir eftir mynd sinni “Invisible Life” sem vann Un Certain Regard verðlaunin á Cannes 2019. Myndin hefur auk þess hlotið yfir 27 tilnefningar á alþjóðlegum hátíðum og þar af unnið til 14 verðlauna. Invisible life er byggð á skáldsögunni “The Invisible Life of Eurídice Gusmão” eftir Martha Batalha. Sagan hafði djúpstæð áhrif á Karim þar sem svo margt í sögunni minnir hann á móður hans og ömmu sem báðar voru einstæðar útivinnandi mæður. Í viðtali við Variety á síðasta ári lýsir hann þessu frekar: "Það hefði verið svo mikilvægt ef fólk sem hitti móður mína hefði vitað hvað hún þurfti að ganga í gegnum. Bæði hún og amma mín unnu úti. Þegar ég las bókina upplifði ég svo sterkt, vá, loksins er einhver sem talar um það hvernig lífið var fyrir konur á þessum tíma, ekki bara í Brasilíu heldur líka annars staðar í heiminum. Ég vildi votta móður minni og hennar kynslóð virðingu mína með gerð þessarar myndar." Sagan hefst um 1950 og spannar nokkra áratugi í lífi systra sem stíað var í sundur af föður þeirra þegar þær eru rétt komnar yfir tvítugt. Sannfærðar um að þær búi í sitthvorri heimsálfunni, ímynda þær sér að hin systirin lifi betra lífi. Raunin er hins vegar sú að árum saman hafa þær búið í sömu borginni og þráð að finna hvor aðra. Eins og áður hefur komið fram þá hefur myndi hlotið fjölda verðlauna og mikið lof. Bæði fyrir einstaka túlkun og djúpstæðan skilning á aðalsöguhetjunum og dramatíska útfærslu leikstjórans.

Áhrifamiklar heimildarmyndir á Stockfish - Nordisk Panorama Focus!

2/13/2020

Unnendur heimildamynda verða ekki sviknir á Stockfish því þrjár af bestu myndum Nordisk Panorama verða sýndar á hátíðinni. Aðstandendur myndanna verða gestir Stockfish og taka þátt í Q&A eftir sýningar. Þeir munu einnig taka þátt í Norrænu heimildarmyndapallborði stýrðu af fulltrúa frá Nordisk Panorama. Q’s Barbershop Opnunarmynd Nordic Panorama 2019 Q’s Barbershop vann hug og hjörtu áhorfenda og mun leikstjóri myndarinnar, Emil Langballe, fylgja myndinni eftir á Stockfish. Aðalviðfangsefni myndarinnar er rakarinn Q, í Vollsmose Danmörku og fasta kúnnar hans sem leita ekki einungis til hans til að fá flotta klippingu heldur geta þeir létt á hjarta sínu í stólnum með hvað sem þeim er efst í huga þá stundina. Myndin hefur hlotið fjórar tilnefningar sem besta heimildarmyndin á Danish Film Awards, Nordisk Panorama, Oslo Pix og CPH:DOX. https://www.youtube.com/watch?v=LoLZsLpWif8 Humanity on Trial Besta myndin að mati áhorfenda á Nordisk Panorama var Humanity on Trial eftir Jonas Bruun. Myndin fylgir ungum Dana Salam Aldeen sem ásamt öðrum vaktaði strendur Grikklands til þess að koma flóttafólki í lífsháska til hjálpar. Kvöld eitt þegar hann leitar fjölskyldu sem er týnd á sjó er hann handtekinn og gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðardóm fyrir smygl í grísku fangelsi. https://www.youtube.com/watch?v=nU7FciL1UWI Lindy the Return of Little Light Að lokum er það Lindy the Return of Little Light sem vann Best New Nordic Voice eftir Ida Persson Lännerberg en það er hins vegar framleiðandinn China Åhlander sem fylgir myndinni til landsins. Myndin fjallar um listamanninn Lindy sem hefur alltaf verið öðruvísi og aldrei passað inn í fjöldann. Vegna stöðu fjölskyldu sinnar hefur hann aldrei tjáð sig um bakgrunn sinn en nú hefur leikhús í Berlín beðið hann um koma fram sem hann sjálfur og segja sína sögu sem mun breyta öllu. https://www.youtube.com/watch?v=MjWaCmyk7Kk&t=3s

Verðlaunaðar gamanmyndir á Stockfish!

2/6/2020

Þrjár gamanmyndir hafa verið valdar inn á hátíðina sem samtals hafa hlotið 39 tilnefningar árið 2019 og unnið til fjölda verðlauna. Þykir það heldur óvenjulegt fyrir gamanmyndir en ekki er mjög algengt að myndir í þeim flokki hljóti tilnefningar einhverra hluta vegna. Þessar þrjár eru því vel þess virði að sjá og hressa upp á hláturtaugarnar í leiðinni. Extra Ordinary Fyrst má nefna myndina Extra Ordinary eftir leikstjórana Enda Loughman og Mike Ahern. Salurinn hefur gjörsamlega hlegið frá upphafi til enda á sýningum til þessa. Sagan fjallar um skyggna konu sem starfar sem ökukennari en er hins vegar ekkert endilega hrifin af þeim hæfileikum sem hún er búin. Hún ákveður þó að hjálpa ungri stúlku sem haldin er illum anda. Þykir handritið einstaklega vel skrifað og leikurinn frábær. Það er ekki að ástæðulausu sem myndin hefur tekið heim 10 verðlaun af 14 tilnefningum. Þar af tvenn áhorfendaverðlaun og nokkur sem besta myndin. https://www.youtube.com/watch?v=8V1dEsZAQyg It Must Be Heaven It must be heaven þykir einnig mikill hláturtaugakitlari en hún fjallar um palestínskan mann sem flýr heimaland sitt í leit að nýjum heimahögum. Svo virðist þó sem Palestína fylgi honum við hvert fótspor því hvar sem hann kemur er eitthvað sem minnir hann á heimalandið. Það er verðlaunaleikstjórinn Elia Suleiman sem stendur á bak við myndina sem hefur hlotið alls 9 tilnefningar og þrenn verðlaun. Myndin vann meðal annars FIPRESCI Prize á Cannes. https://www.youtube.com/watch?v=w6blvldmt6c Give Me Liberty Síðast en ekki síst er það Bandaríska myndin Give me liberty eftir Kirill Mikhanovsky. Enn ein gamanmyndin með bunka af tilnefningum. Alls 13 tilnefningar og þar af 5 verðlaun. Myndin fjallar um sjúkraflutningamann, í einni helstu aðskilnaðarborg Bandaríkjanna, sem stendur frammi fyrir snúinni ákvörðun þegar óeirðir brjótast út. Ákvörðun sem fólk, sem vill geðjast öllum og á erfitt með að segja nei, vill aldrei þurfa að standa frammi fyrir. En þetta tvennt á einmitt við um aðal söguhetjuna. https://www.youtube.com/watch?v=YR8nVCExVo4&t=41s Þessar þrjár eru tilvalið tækifæri fyrir listræna kvikmyndaunnendur að draga hvern sem er með sér með sér í bíó.

Verðlaunamyndirnar BACURAU og SYNONYMS láta engan ósnortinn!

1/30/2020

Bacurau vann dómnefndarverðlaunin á Cannes í fyrra og Synonyms Gullbjörninn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Báðar eru heldur óvenjulegar sögur með undirliggjandi pólitískri ádeilu. Synomyns, eftir Nadav Lapid, fjallar um tilvist milli tveggja menningarheima án þess að eiga í raun einhvers staðar heima. Myndin á rætur sínar að rekja til persónulegrar reynslu leikstjórans sem flúði heimaland sitt á sínum tíma. “Einn daginn var eins og það kallaði til mín rödd. Svona svipað og hjá Jóhönnu af Örk og Abraham. Ég fann að ég þurfti að fara frá Ísrael. Strax og að eilífu. Slíta mig upp frá rótum, skera á öll bönd við heimalandið og flýja örlög þess. Tíu dögum síðar lennti ég á Charles-de-Gaulle flugvellinum í Frakklandi. Ég valdi Frakkland vegna aðdáunar minnar á Napóleon, “pasjón” fyrir Zidane og Godard mynda sem ég hafði séð tveimur mánuðum áður. Ég var án landvistarleyfis og kunni einungis nokkur orð í frönsku en ég var staðráðinn í að snúa aldrei aftur heim og lifa og deyja og í París.” Þótt sagan eigi rætur að rekja til reynsluheims leikstjórans er hún langt frá því að vera endursögn á einhverju sem gerðist í raunveruleikanum. Nadav notfærir sér skáldskap og ljóðræna tjáningu til að skapa sögu sem er stærri en hann sjálfur. https://www.youtube.com/watch?v=9u1HtImIb6s&t=4s Bacurau er samstarfsverkefni vinanna Kleber Mendonca Filho and Juliano Dornelle. Hugmyndin að kvikmyndinni fæddist fyrir ellefu árum þegar vinirnir voru saman á kvikmyndahátíð í Brasilíu. “Hátíðin var tilkomumikil og í fullkominni andstæðu við umhverfið sem bar fyrir augu okkar á hverjum degi. Bacurau varð til út frá því sem við urðum vitni að og ákveðnum pirringi og löngun að ná fram hefndum á hendur fólki sem álítur fólk sem skipar þennan afskekta stað í veröldinni vera “einfalt”, “fyndið” og “viðkvæmt”. Staðreyndin er sú að fólkið sem tilheyrir þessu samfélagi er alveg jafn margbrotið og áhugavert eins og annars staðar.” Kleber og Juliano langaði að gera mynd sem þeim báðum langaði að sjá og útkoman var Bacurau. Suður Amerískur vestri sem gerist í framtíðinni í einstaklega retró framsetningu. https://www.youtube.com/watch?v=Fhjqvb60LLw Kaupa miða hér.

MONOS og THE PAINTED BIRD - fyrstu titlar Stockfish 2020 kynntir!

1/27/2020

Monos og The Painted Bird eru báðar áhrifaríkar verðlaunamyndir sem eiga það sameiginlegt að hreyfa hressilega við áhorfendum á nýstárlegan máta. Gestir Stockfish eiga svo sannarlega von á magnaðri dagskrá í ár. The Painted Bird, eftir leikstjórann Vacláv Marhhoul, hefur vakið mikla athygli fyrir áhrifaríka framsetningu. Handritið er byggt á samnefndri skáldsögu Jerzy Kosiński, um ungan dreng af gyðingaættum sem sendur er af foreldrum sínum í fóstur til frænku sinnar í Austur Evrópu til að forða honum frá ofsóknum á hendur Gyðinga. Stuttu síðar fellur frænkan skyndilega frá og drengurinn endar á flakki um harðsvíraða veröld stríðshrjáðs lands. Upptökutæknin sem notast er við er mjög sjaldgæf í dag og segir Vacláv, leikstjóri myndarinnar, þetta um ástæður þess: “Við skutum myndina á 35mm í hlutföllunum 1:2.35 á svart hvíta filmu því það er svo tilfinningaríkt format. Ekkert annað format getur fangað af svo mikilli nákvæmni bæði fegurð og ljótleika þess sem birtist á skjánum.” https://www.youtube.com/watch?v=ECUiSb2WEvU Kólumbíska kvikmyndin Monos eftir leikstjórann Alejandro Landes er einnig stríðsdrama sem hefur ekki síður vakið athygli og stillir einnig saman barnungum persónum í stríðshrjáðu umhverfi. Sagan fjallar um hóp skæruliða sem vart eru komnir af barnsaldri. Þeir hafa í haldi gísl og sitja um hann vörð á fjarlægum fjallstindi í Kólumbíu. Óvænt launsátur verður til þess að þeir þurfa að flýja inn í frumskóginn þar sem hremmingar verða þess valdandi að rækilega hriktir í stoðum hópsins og grefur undan upprunalega markmiði hans. Alejandro rýnir í kaótíska stríðsþoku frá sjónarmiði unglinga og nýtir til þess bæði vana og óvana barnunga leikara sem saman skapa grimmilegt og óútreiknanlegt umhverfi þar sem allt getur gerst. Jafnvel friður. Alejandro leikstjóri myndarinnar hefur þetta segja um hvað kveikti neistann að tilurð myndarinnar. “Borgarstyrjöld hefur geisað í Kólumbíu óendanlega lengi milli margra ólíkra hópa: mismunandi hópa málaliða, skæruliða, fíkniefnakónga, stjórnvalda og erlendra afla. Allt og allir virðast vera í hár saman og sú veika von um frið sem er í loftinu virðist aldrei verða að veruleika.” https://www.youtube.com/watch?v=disclpVzoMQ Bæði Monos og Painted Bird spila á strengi sakleysis og ofbeldis á óvægan máta en eru þó gjörólíkar myndir sem hafa báðar unnið til virtra verðlauna. Gestir Stockfish verða ekki sviknir af þessum tveimur. Fleiri spennandi titlar verða kynntir fljótlega.

OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR í SPRETTFISK - stuttmyndakeppni Stockfish & KUKL!

1/22/2020

Kvikmyndagerðarfólk getur nú sent inn myndir í Sprettfisk, stuttmyndakeppni Stockfish. Nýbreytni er þetta árið að myndirnar þurfa ekki að vera Íslandsfrumsýndar heldur geta allar myndir sem framleiddar voru 2019 og síðar tekið þátt. Markmið keppninnar er að vekja athygli á ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki og hvetja til frekari dáða með verðlaunum sem leggja grunninn að næsta verkefni. Marzibil Sæmundardóttir framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að Stockfish hafi viljað gefa fleirum kost á þátttöku án þess að takmarka möguleika þeirra á öðrum hátíðum. "Það er mikilvægt fyrir upprennandi kvikmyndagerðarfólk að geta sýnt verk sín á fleiri en einni íslenskri hátíð. Þess fyrir utan viljum við verðlauna það besta sem var framleitt á síðasta ári en ekki takmarka okkur við ósýndar myndir." Sú stuttmynd sem valin verður besta mynd Sprettfisks fær í verðlaun eina milljón króna úttekt hjá Kukl í formi tækjaleigu á kvikmyndabúnaði en Kukl er stærsta tækjaleiga landsins sem sérhæfir sig í þjónustu við kvikmynda- og sjónvarpsgerð. Sigurvegari síðasta árs var myndin XY eftir Önnu Karín Lárusdóttur og hefur hún síðan farið á níu kvikmyndahátíðir. Það er því til mikils að vinna og þess má geta að allar myndirnar sex sem valdar eru fara á ferðalag um Norður Ameríku og Kanada, með Taste of Iceland ári síðar, sem fulltrúar íslenskrar kvikmyndagerðar. Inntökuskilyrði Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og gerir hátíðin þá kröfu að myndirnar hafi komið út árið 2019 eða síðar. Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina, eða myndir sem skarta íslenskum leikstjórum eða framleiðendum. Myndin þarf auk þess að vera með enskum texta. Umsóknir sendist á stockfish@stockfishfestival.is merktar: SPRETTFISKUR, fyrir 20. Febrúar ásamt meðfylgjandi upplýsingum: Nafn myndar (ef hún ber ekki enskt heiti þarf það að fylgja með)Nafn leikstjóraNafn framleiðandaLengd myndarStutt synopsis (á ensku og íslensku)ÚtgáfudagsetningHlekkur á myndina ásamt lykilorði ef þarfTengiliðaupplýsingar