Fréttir

Stockfish 2020 mun seint gleymast.

3/30/2020

Nú þegar hátíð er lokið á þessum skringilegum tímum langar aðstandendum Stockfish að þakka öllum sem tóku þátt, bæði gestum og þeim sem lögðu hönd á plóg til þess að gera þetta allt saman mögulegt. Stockfish 2020 mun seint gleymast. Rétt fyrir opnun leit út fyrir að við myndum setja miðasölu og aðsóknarmet ef marka mátti sölu fyrir hátíð og opnuðum við með pompi og prakt daginn fyrir samkomubann. 13. mars var svo ljóst að endurhugsa þurfti öll plön við nýjar aðstæður vegna COVID-19. Við þurftum að aflýsa öllum viðburðum með erlendum gestum þar sem ekki þótti skynsamlegt að ferðast á milli landa. Eftir stóð þó að hátíðin var farin af stað og búið að var að kaupa sýningarrétt á fjölda kvikmyndaverka. Við ákváðum að halda okkar striki með sýningar en þó með fullu tilliti til hversu margir mættu vera í hverjum sal. Við gættum fyllstu varúðar hvað varðar handþvott, þrif og sáum til þess að handspritt væru aðgengileg og nóg pláss til þess að auðveldara væri að virða 2 m regluna. Þrátt fyrir allt og allt þá voru þó nokkrir sem mættu í bíó og viljum við sérstaklega þakka gestunum okkar fyrir þolinmæðina og hversu samvinnuþýtt fólk var að fylgja reglunum. Þótt óneitanlega sé það svekkjandi að hátíðin hafi ekki getað farið fram með sínu hefðbundna sniði þá erum við þó stolt að hafa getið boðið upp á gæða kvikmyndaveislu fyrir þá sem það kunna að meta og þannig veitt einhverjum kærkomna tilbreytingu á þessum erfiðu tímum. Við hlökkum til að bjóða upp á enn betri veislu að ári liðnu sem vonandi fær að skína sínu skærasta ljósi án skugga veirufaralds um allan heim. Viljum við óska öllum góðs gengis og munum að halda fast í kærleikann og gleðina innra með okkur. Hér eru nokkrar myndir úr opnunargleðinni daginn fyrir samkomubann.

Blaðberinn í leikstjórn Ninnu Pálmadóttur hlýtur Sprettfiskinn í ár

3/23/2020

Alls voru það 6 myndir af hátt í 40 innsendum sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar þetta árið og var það einróma álit dómnefndar að Blaðberinn eftir Ninnu Pálmadóttur bæri sigur úr bítum. Eftirfarandi umsögn skýrir val dómnefndarinnar nánar: "Stundum kemur hjálpin úr ólíklegustu átt, t.d. frá littlum manneskjum sem við höfum kannski ekki veitt mikla athygli eða tekið sérstaklega eftir. Stundum geta littlar manneskjur verið einmitt það - börn. Hetja Sprettfisksins í ár er brotin og fer ekki hátt. En þrátt fyrir að bera sínar eigin sorgarbirgðar er þessi litla manneskja megnug að sýna náungakæreik og hughreysta bláókunnuga manneskju. Við í dómnefnd erum einróma í vali okkar ár. Vegna þess hvað myndmálið er sterkt og segir mikla sögu án þess að notast við mörg orð. Vegna þess hve handritið er vel útfært og setur mannleg tengsl í forgrunn. Við bætist svo einstakt auga fyrir smáatriðum sem gera mikið fyrir söguna. Því er það okkar mat að Blaðberinn, eftir Ninnu Pálmadóttur, hljóti Sprettfiskinn í ár." Mynd úr Blaðberanum. "Stundum kemur hjálpin úr ólíklegustu átt, t.d. frá littlum manneskjum sem við höfum kannski ekki veitt mikla athygli eða tekið sérstaklega eftir. Stundum geta littlar manneskjur verið einmitt það - börn." - Dómnefnd Ninna var að vonum snortin yfir sigrinum og umsögn dómnefndar. Vegna aðstæðna fór fram látlaus verðlaunaafhending í Bíó Paradís í gær þar sem einungis voru viðstaddir aðstandendur hátíðarinnar og ljósmyndari sem festi sigurvegarann á mynd. "Ég er voðalega þakklát og meir á sama tíma. Þetta er náttla mjög hvetjandi og mikill heiður. Mér þykir ótrúlega vænt um umsögn dómnefndar og er þakklát aðstandendum hátíðarinnar hvernig þeim hefur tekist að halda sínu striki eins og hægt er við einstaklega erfiðar aðstæður." Ninna fær í verðlaun 1.000.000 kr í tækjaúttekt frá Kukl ehf. sem mun koma sér einstaklega vel við gerð næstu myndar. Nú þegar situr hún við skriftir að handriti í fullri lengd en það er aldrei að vita nema það fæðist hugmynd að annari stuttmynd. Að auki hlaut Ninna þennan forláta verðlaunagrip til eignar sem er hannaður af Marsibil G. Kristjánsdóttur og bróður hennar Róberti Daníel Kristjánssyni. Verðlaunagripurinn sem veittur er í fyrsta skipti í ár er eignargripur og hannaður af Marsibil G. Kristjánsdóttur og Róbert Daníel Kristjánssyni.

Tilkynning vegna COVID-19 veirunnar og samkomubanns! - Uppfært

3/16/2020

Kæru gestir og samstarfsaðilar Bíó Paradísar og Stockfish. Vegna samkomubanns sem yfirvöld hafa nú sett á vegna COVID-19 veirunnar, vilja stjórnendur Bíó Paradísar og Stockfish kynna breytt skipulag í húsinu meðan þetta tímabil varir. Dagskráin verður með óbreyttu sniði en við höfum takmarkað miðasölu á einstaka sýningar við þá tölu sem tryggir það að hægt sé að hafa 2 metra á milli allra gesta. Einnig höfum við merkt sérstaklega þau sæti í hverjum sal þar sem er best að sitja til að tryggja þessa fjarlægð. Auðvitað kemur fólk saman í bíó, sem eru vinir og jafnvel sambýlisfólk og vill kannski sitja saman. Við biðjum gesti okkar að fylgja almennri skynsemi þegar kemur að þessu. Við höfum merkt svæði við veitingasöluna sem fólk má standa og við biðjum alla um að reyna að forðast það að það sé ofan í hvort öðru. Einnig viljum við beina því til fólks að versla miðana sína ef það getur á netinu. Við bjóðum uppá spritt og góðan aðgang að handþvotti, og biðjum fólk um að nýta sér það. Flestir snertifletir í afgreiðslu og anddyri og á salernum eru þrifnir með sótthreinsandi efni hvern klukkutíma meðan opið er. Við munum telja inn í innhleypingar á sýningar og hafa stjórn á því hversu margir eru í anddyrinu í einu. Munum að við erum öll almannavarnir og högum okkur einsog við viljum ekki smita aðra. Góða skemmtun og takk fyrir samvinnuna og þolinmæðina á meðan þetta ástand varir!

Dogma leikstýran Mona J. Hoel situr fyrir svörum á Stockfish!

3/11/2020

Mona J. Hoel, leikstjóri og handritshöfundur frá Noregi, verður viðstödd sýningu myndar sinnar Are you Leaving Already? og svarar spurningum áhorfenda eftir sýninguna. Myndin sver sig í Dogma stílinn sem naut mikillar hylli fyrir ekki löngu síðan en eldri kvikmynd eftir Monu, Cabin Fever (2000) var 19. hluti í kvikmyndaröðinni Dogme 95 í hinni alkunnu Dogma Hreyfingu. Dogma 95 kvikmyndahreyfingin snýst um að fanga raunveruleikan eins og nákvæmlega og mögulegt er. Upphafsmenn hennar voru Lars Von Trier og Thomas Vinterberg og markmiðið var að gefa leikstjórum meira frelsi til að iðka list sína án þess áhrifa og þrýstingi frá stórum kvikmyndaverum. Viðfangsefnin í Dogma eru því oft hversdagsleikinn sjálfur og ekki er þörf á flóknum kvikmyndaskotum eða tæknibrellum. Dogma 95 innheldur 10 reglur fyrir leikstjóra sem fylgja þarf til að vera trúr hreyfingunni. Are You Leaving Already? telst fara eftir öllum settum skilyrðum þar með talið að hljóta enga styrki úr neinum Ríkissjóðum. Tilangur þess er að leikstjórinn upplifi algjört tjáningarfrelsi og sé engum háður við gerð myndarinnar. Are you Leaving Already? er 87 mínútna löng og fjallar um unga stúlku að nafni Madeleine sem er leikin af Nicole Madeleine Aurdahl (Chlorox, Ammonium and Coffee). Eftir að hafa setið í fangelsi fyrir smáglæp flytur Madeleine inn í íbúð á vegum föður síns sem hefur ekki farið leynt með að hann kærir sig lítið um hana. Eins og margt ungt fólk nú til dags leitast hún því við að byggja náin sambönd við fólk utan fjölskyldu sinnar og sjá um sig sjálf. Eftir að hún flytur inn fer horgræni liturinn á íbúðinni í taugarnar á henni svo hún ákveður að ráða tvo málara til að hjálpa við að umbreyta íbúðinni. Málararnir átta sig fljótt á því að þessi stúlka þarf mun meiri hjálp en við það eitt að mála íbúðina. Því miður er saga Madeleine ekki einstök. Mörg börn eiga foreldra sem snúa við þeim baki þegar uppúr trosnar úr sambandi foreldranna. Móðir hennar er jafnfjarverandi þarf sem hún setur vinnu í fyrirrúmi yfir dótturina. Slíkur aðskilnaður getur valdið djúpum sárum sem markar lífshlaup barna. Í Are you Leaving Alrady? er aðalsöguhetjan átakanlega meðvituð um aðgerðaleysi foreldra sinna og er augljóst hversu sterk áhrif þessi höfnun hefur á hana sem persónu og hvernig hún tekst á við lífið. Myndin endurspeglar því sterkt hvernig fjarvera foreldra úr lífi barns getur haft sterk mótunaráhrif. Mona J. Hoel lærði ljósmyndun í International Centre of Photography í New York, leikhúsfræði við Oslóar Háskóla og leikstjórn í Dramatic Institute í Stokkhólmi þar sem hún naut góðs af handleiðslu Ingmars Bergmans. Hin realíska stemming í “Are You Leaving Already?” er áhrifarík og vekur áhorfendur til umhugsunar sem gerir það enn ómetanlegra að hafa aðgang að leikstjóranum sjálfum eftir sýninguna til að svara þeim spurningum sem vakna. Hægt er að kaupa með hér.

Stockfish frumsýnir - Eins og Málverk eftir Eggert Pétursson.

3/8/2020

Frumsýning á íslenskri heimildarmynd á Stockfish þar sem leikstjóri myndarinnar Gunnlaugur Þór Pálsson situr fyrir svörum eftir sýningu myndarinnar. Gunnlaugur leikstýrði nú seinast þáttum um hnattræna hlýnun Jöklaland: Veröld breytinga sem kom út árið 2016. Nú tekst hann enn og aftur á við íslenska náttúru en í þetta skiptið einblínir hann á áhrif náttúru á menningu og mannlíf, en ekki öfugt. Kvikmyndin fjallar um Eggert Pétursson og verk hans en hann er einn af helstu samtímalistamönnum landsins. Eggert lýsir eigin málverkum og sköpunarferli sem hann tengir mikið við íslenska náttúru. Áhorfendur njóta einnig leiðsagnar Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, grasafræðings, sem fléttar saman eiginleikum íslenskrar náttúru og upplifun okkar á verkum Eggerts. „Það er engin ein rétt upplifun við myndina, maður horfir á hana í tíma. Það er svo mikið af smáatriðum, maður sér aldrei eina mynd heldur þarf alltaf að koma aftur og uppgötva eitthvað nýtt. Það er eins með náttúruna en munurinn er auðvitað sá að þetta er tilbúin náttúra, hún er ekki raunveruleg.“ Þetta segir Eggert í viðtali við Rúv fyrir i8 sýningu sem hann var með árið 2017. En kvikmyndin skartar ekki eingöngu sjónrænni fegurð í formi íslenskrar náttúru og myndlistar, þar sem Atli Örvarsson semur tónlist fyrir kvikmyndina og SinFang einnig. Atli Örvarsson hefur samið tónlist fyrir myndir á borð við Hrútar, Blóðberg, The Mortal Instruments: City of Bones, sem og þáttaseríur eins og Law & Order: LA og Hraunið. En Sin Fang gaf út plötuna Sad Party í fyrra. Þannig nær myndin aukinni dýpt á íslenska listamenningu með tónum, gróðri og málverkum.

Tilkynning vegna Sprettfisks ...að gefnu tilefni.

3/4/2020

Skilyrði fyrir þátttöku í Sprettfiski breyttust á árinu. Áður þurftu myndir að vera Íslandsfrumsýndar á hátíðinni til að vera gjaldgengar, sömu skilyrði og eru sett t.d. á RIFF. Þessi skilyrði gerðu það að verkum að kvikmyndagerðafólk gat ekki sent stuttmyndir sínar inn á allar hátíðir landsins heldur þurftu að gera upp á milli. Sprettfiskur var búin til með því grunnmarkmiði að fagna því besta sem væri gangi í grasrótinni og styðja við kvikmyndagerðarfólk með styrkveitingu til vinningshafa keppninnar. Í ár var ákveðið að sleppa þessu skilyrði um Íslandsfrumsýningu og því frekar bjóða öllum stuttmyndum síðasta árs að taka þátt. Getum við þannig með vissu sagt að við sýnum allt það besta sem er í gangi í íslenskri stuttmyndagerð. Skilyrði voru sett að myndir yrðu að vera gerðar á árinu 2019 eða seinna. Við skiljum að orðaval þetta gæti hafi valdið ruglingi þar sem myndir eru yfirleitt skilgreindar út frá frumsýningu en ekki framleiðsluári þar sem framleiðsla getur átt sér stað yfir langt tímabil fyrir útgáfu, jafnvel dreift yfir nokkur ár. Réttari hefði verið að segja að myndirnar þyrftu að hafa verið frumsýndar á síðasta ári eða síðar til að vera gjaldgengar. Við teljum þó ólíklegt að þetta orðaval hafi komið að sök þar sem aldrei hafa fleiri myndir verið sendar inn á Sprettfiskinn og í ár eða hátt í 40 myndir. Margar þeirra komu út snemma á síðasta ári og er því framleiðsluár þeirra raunverulega fyrir 2019 en þær voru allar teknar til greina. Allar myndir sem sendar voru inn á Sprettfisk voru undir sama hatti hvað þetta varðar. Í tilfelli Nýr dagur í Eyjafirði, var tekið fram í umsókn að myndin hefði aðeins verið sýnd einu sinni á árinu 2018 og var sú sýning ekki opin almenningi. Eiginlegt frumsýningarár var því 2019 og var myndin m.a. sýnd á RIFF sem gerir kröfu um Íslandsfrumsýningu. Myndin var því tekin til greina rétt eins og aðrar myndir sem gerðar voru árið 2018 með frumsýningu á árinu 2019. Við biðjumst velvirðingar á því orðavali sem notað var í upphaflegri auglýsingu fyrir umsóknir í Sprettfisk sem kann að hafa valdið ruglingi. Það hefur nú verið leiðrétt til að það valdi ekki frekari ruglingi í framtíðinni. Það getur vissulega verið flókið fyrst þegar svona reglum er breytt og eitthvað ekki hugsað eða sett fram nægilega skýrt. Það er allavega orðið skýrt núna. Stockfish ákvað að halda sig við þær reglur sem valnefnd voru settar og vann eftir, frekar en að breyta þeim eftir á vegna orðavals í upprunalegu fréttinni. Það er miður ef þetta hefur hamlað einhverjum innsendingum og ef svo er hörmum við það mjög. Aftur á móti er hægt að segja að allar innsendar myndir voru metnar á sömu forsendum.

Leikstjóri og aðalleikari Arracht mæta á Stockfish!

3/1/2020

Arracht er fyrsta mynd leikstjórans Tom Sullivan í fullri lengd eftir nokkrar vel heppnaðar stuttmyndir sem unnið hafa til verðlauna á hátíðum víðsvegar um heiminn. Tom kemur til landsins til að fylgja mynd sinni eftir ásamt aðalleikara myndarinnar Dónall Ó Héalai. Aðalsöguhetja Arracht, Coleman Sharklay, er heillandi sjómaður sem yrkir litla jörð sem hann leigir af enskum óðalsbónda. Coleman er mikils metinn í þorpinu og á í góðu sambandi við óðalsbóndann. Líf hans tekur þó óvænta stefnu þegar hann ákveður að taka inn hermanninn Patsy (Dara Devaney). Sögusvið Arracht er Írland um miðja nátjándu öld 1845-1849 þegar Hungursneiðin mikla geisaði í landinu. Vegna landlægrar sýkingar brást kartöfluuppskera landsins með þeim afleiðingum að milljón manns dó úr hungri og annar eins fjöldi flúði land. Stilla úr Arracht. Fundur við óðalsbóndann tekur óvænta stefnu. Nokkru áður en hungursneyðin dynur yfir er ljóst að kartöflu gresin eru sýkt. Þegar útlit er fyrir að uppskeran muni bregðast þetta árið fer Coleman á fund Óðalsbóndans ásamt Patsy og bróður sínum til að reyna að tala hann ofan af fyrirhuguðum skatthækkunum á jörðinni. Sá fundur endar þó öðruvísi en áætlað var og framtíð Colemans virðist jafn dauðadæmd og kartöfluuppskeran þetta árið. Myndin er myrk eins og tímarnir sem sagan gerist á. Áhorfandinn fer ekki varhuga af þeim hryllingi sem plágan var sem og örlög Colemans. Sullivan endurvekur þennan sögulega tíma Írlands á einskæran hátt bæði með myndrænni túlkun og að gera myndina á upprunalega tungumálinu. Túlkunin er realísk en söguvindan minnir þó á nútíma spennutrylli. Dónall Ó Héalai er fæddur í Galway, Írlandi, sem gerir túlkun hans á Coleman einkar trúverðuga og verður órjúfanlegur þáttur í þeim realíska tón sem leikstjórinn virðist hafa sóst eftir. Arracht gefur skýra innsýn inn í óvæga sögu Írlands og hugrekkið sem sú fortíð hefur byggt upp meðal þjóðarinnar. Spennandi kostur bæði fyrir aðdáendur sögulegs drama sem og þá sem kjósa spennu. Ekki skemmir fyrir að bæði leikstjórinn Tom Sullivan og aðal leikarinn Dónall Ó Héalaí verða viðstaddir sýninguna og svara spurningum áhorfenda í kjölfar sýningarinnar. Myndin var valin besta írska myndin á Virgin Media Dublin International Film Festival og aðalleikarinn Dónall Ó Héalai hlaut auk þess Aer Lingus Discovery verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni. Myndin hlaut einnig  áhorfendaverðlaunin á Glasgow Film Festival 2020. „Premiere in Tallinn last November as part of the Black Nights International Film Festival, with critics calling the film “bracingly authentic” and “a striking feature debut”. Its Irish Premiere at the Dublin International Film Festival was met with praise from Irish critics and audiences, with the Irish Times calling it “unmissable and a beautifully crafted murder ballad” – screenireland.ie Miðar fást hér.

Leikstjóri Tolkien, Dome Karukoski, staðfestir komu sína á Stockfish!

2/26/2020

Finnski leikstjórinn Dome Karukoski hefur staðfest komu sína á Stockfish með mynd sinni Tolkien. Meðal stjarna sem prýða myndina eru Nicholas Holt (Mad Max, Xmen) sem leikur höfundinn á yngri árum og Lily Collins (To the Bone, Rules Don’t Apply) Eins og flestir vita þá skapaði J.R.R. Tolkien stórkostlegan fantasíu heim fyrir sögur sínar Hobbitan og hina margrómuðu Hringadrottinssögu. Báðar fengu frábærar viðtökur í kvikmyndaútfærslu Peter Jackson sem og teiknimyndaútgáfa Ralph Baski. Þessa stundina stendur líka yfir framleiðsla á nýjum sjónvarpsþáttum á vegum Amazon streymisveitunnar. Sögur Tolkien hafa því verið vinsælt viðfangsefni ýmissa miðla en höfundurinn sjálfur og saga hans hafa ekki verið eins mikið í sviðsljósinu. Karukoski vildi beina sjónum sínum að Tolkien ungum og þá ekki bara mótun hans sem höfundar og uppruna hinna víðfrægu sagna heldur líka reynslu hans í seinni heimsstyrjöldinni og ástinni sem mótaði líf hans. Áhorfendur munu fylgjast með Tolkien stofna félag með samnemendum sínum í kringum sameiginlega ástríðu þeirra á bókmenntum og hvernig ástir tókust með honum og Edith Mary Bratt. Einnig er farið inn á hvernig vaxandi áhugi hans á tungumálum verður kveikjan að hinum víðfrægu goðsögnum. Það er ekki lítil áskorun að gera ástsælum höfundi eins og Tolkien skil sem á svo stóran og dyggan aðdáendahóp. Margir hafa kynnt sér sögu hans og gert sér sínar hugmyndir um ævi hans út frá heimildum úr ólíkum áttum. Það er því jákvætt að reynslumikill leikstjóri eins og Dome Karukoski skuli hafa tekið verkið að sér en hann hefur hlotið alls 21 verðlaun og 17 tilnefningar fyrir fyrri kvikmyndaverk sín. Meðvitaður um hversu stór áskorun það er að fjalla um líf Tolkien ákvað Karukoski að taka fyrir yngri ár höfundarins. Karukoski hefur sagt að honum hafi fundist hann eiga meira sameiginlegt með höfundinum ungum og getað þar gert honum betri skil. Báðir ólust t.d. upp án föðurs og upplifðu sig utanvelta. Karukoski er þó ófeiminn að fylla upp í eyðurnar svo sagan flæði vel fyrir áhorfendur á sama tíma og hann reynir að vera eins trúr viðfangsefninu og mögulegt er. Realísk frásögnin gefur þó líka innsýn inn í stórkostlegt hugarflug höfundarins áður en Hringadrottinsaga er fullmótuð. Karukoski er sjálfur mikil aðdáandi Tolkien sem markað hefur útfærslu hans en þó ekki þannig að það hái frásögninni. Aðdáendur Karukoski og/eða Tolkien fá einstakt tækifæri til að spyrja leikstjórann enn frekari sprurninga eftir sýningu myndarinnar í Bíó Paradís þann 13. Mars. Tryggið ykkur miða hér.

Alþjóðleg frumsýning - A Fire In The Cold Season - Q&A

2/25/2020

Stockfish verður fyrst til að sýna myndina A Fire in the Cold Season utan heimalandsins Kanada. Justin Oakey leikstjóri myndarinnar verður viðstaddur frumsýninguna og tekur þátt í Q&A eftir sýningu. A Fire in the Cold Season fylgir svipuðu þema og fyrri myndir Justins en hann virðist einkar hugfanginn af sögusviði Nýfundnalands, sögur hans eru oftast dramatískar með dularfullu ívafi. Myndin fjallar um veiðimann og verðandi móður sem bindast óvæntum böndum þegar líkfundur gerir þau óvænt ábyrg fyrir skuldum hins látna. Þau þurfa fljótt að reiða sig hvort á annað er þau neyðast til að leggja á flótta undan harðsvíruðum útlögum. Framundan virðist ekkert öruggt nema blóðug örlög. Justin hefur haft mikla ástríðu fyrir því að segja sögur frá unga aldri. Kvikmyndaformið varð hans tjáningaleið eftir að hafa reynt fyrir sér í videogerð á unglingastigi í skóla. Þegar Justin vinnur með sögusvið Nýfundnalands vill hann vera eins sannur sögusviðinu og mögulegt er með því að sækja innblástur í þá sem eru honum næstir, bæði hvað varðar samtöl og myndrænar útfærslur. Það er viðeigandi að alþjóðleg frumsýning á A Fire in the Cold Season eigi sér stað á Íslandi vegna sögulegra og menningarlegra tengsla þessara tveggja eyja. Ísland og Nýfundaland er eyjur af svipaðri stærð og mannfjölda sem hafa báðar þurft að byggja upp sjálfbær samfélög við erfiðar veðurfarslegar aðstæður. Eftir sýninguna er einstakt tækifæri fyrir kvikmyndaáhugafólk að hitta Justin og spyrja hann frekar út í verk hans. Fire in Cold Season heldur áhorfendum hugföngnum frá upphafi til enda.

H.P. Lovecraft og Nicholas Cage á Stockfish 2020!

2/24/2020

Þá eru það frábærar fréttir fyrir Lovecraft og Nicholas Cage aðdáendur en myndin Color Out of Space sem er byggð á sögu Lovecrafts með Nicholas Cage í aðalhlutverki verður Midnight Madness sýningin á Stockfish í ár. Color out of Space er leikstýrð af Richard Stanley sem snýr aftur í leikstjórastólinn eftir gott 20 ára hlé. Síðasta mynd sem kom út í hans leikstjórn var “Hardware” sem sló í gegn innan cult heimsins á sínum tíma. Richard ólst upp í Suður Afríku þar sem móðir hans las reglulega fyrir hann sögur eftir Lovecraft. Hann var sérstaklega hrifinn af Color out of Space en hún er líka sögð vera í uppáhaldi hjá höfundinum sjálfum sem hafði þó skrifað ófáar smásögur. Í viðtali við Los Angeles Times í fyrra sagði Stanley þetta: ““ég var einmanna, skrítinn krakki sem eyddi miklum tíma í að teikna allskonar skrímsli með crayon litum” segir Stanlay með bros á vör. Að hans sögn var það hans flótti frá vandræðum sem foreldrar hans áttu í sambandi sínu. Nokkrum árum seinna tók “Color Out of Space” við þessu sama hlutverki” Stanley skrifaði handritið ásamt Scarlett Amaris og saman ákváðu þau að setja söguna upp í nútímanum í stað þess tíma sem upprunalega sagan gerist á. Sú ákvörðun virðist ekki há útkomuninni né hrifningu Lovecraft aðdáenda því Color Out of Space vann bæði Besta myndin og áhorfendaverðlaunin á sérstakri Lovecraft kvikmyndahátíð í fyrra. Í stuttu máli fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina þá er sagan um Gardner fjölskylduna sem flyst úr borg í sveit til að öðlast friðsamara líf. Raunin verður þó allt önnur því í stað sveitasælu verður líf fjölskyldunnar að litríkri martröð eftir að lofsteinn lendir í garðinum þeirra. Við ráðleggjum þeim sem vilja koma á sýninguna að tryggja sér miða sem fyrst því það verður einungis ein sýning! Tryggðu þér miða hér.

Leikstjórinn Karim Aïnouz mætir á Stockfish með verðlaunamynd sína, Invisible Life!

2/19/2020

Stockfish kynnir með stolti að hinn margverðlaunaði leikstjóri, handritshöfundur og sjónlistamaður Karim Aïnouz verður einn af gestum hátíðarinnar í ár. Hann fylgir eftir mynd sinni “Invisible Life” sem vann Un Certain Regard verðlaunin á Cannes 2019. Myndin hefur auk þess hlotið yfir 27 tilnefningar á alþjóðlegum hátíðum og þar af unnið til 14 verðlauna. Invisible life er byggð á skáldsögunni “The Invisible Life of Eurídice Gusmão” eftir Martha Batalha. Sagan hafði djúpstæð áhrif á Karim þar sem svo margt í sögunni minnir hann á móður hans og ömmu sem báðar voru einstæðar útivinnandi mæður. Í viðtali við Variety á síðasta ári lýsir hann þessu frekar: "Það hefði verið svo mikilvægt ef fólk sem hitti móður mína hefði vitað hvað hún þurfti að ganga í gegnum. Bæði hún og amma mín unnu úti. Þegar ég las bókina upplifði ég svo sterkt, vá, loksins er einhver sem talar um það hvernig lífið var fyrir konur á þessum tíma, ekki bara í Brasilíu heldur líka annars staðar í heiminum. Ég vildi votta móður minni og hennar kynslóð virðingu mína með gerð þessarar myndar." Sagan hefst um 1950 og spannar nokkra áratugi í lífi systra sem stíað var í sundur af föður þeirra þegar þær eru rétt komnar yfir tvítugt. Sannfærðar um að þær búi í sitthvorri heimsálfunni, ímynda þær sér að hin systirin lifi betra lífi. Raunin er hins vegar sú að árum saman hafa þær búið í sömu borginni og þráð að finna hvor aðra. Eins og áður hefur komið fram þá hefur myndi hlotið fjölda verðlauna og mikið lof. Bæði fyrir einstaka túlkun og djúpstæðan skilning á aðalsöguhetjunum og dramatíska útfærslu leikstjórans.

Áhrifamiklar heimildarmyndir á Stockfish - Nordisk Panorama Focus!

2/13/2020

Unnendur heimildamynda verða ekki sviknir á Stockfish því þrjár af bestu myndum Nordisk Panorama verða sýndar á hátíðinni. Aðstandendur myndanna verða gestir Stockfish og taka þátt í Q&A eftir sýningar. Þeir munu einnig taka þátt í Norrænu heimildarmyndapallborði stýrðu af fulltrúa frá Nordisk Panorama. Q’s Barbershop Opnunarmynd Nordic Panorama 2019 Q’s Barbershop vann hug og hjörtu áhorfenda og mun leikstjóri myndarinnar, Emil Langballe, fylgja myndinni eftir á Stockfish. Aðalviðfangsefni myndarinnar er rakarinn Q, í Vollsmose Danmörku og fasta kúnnar hans sem leita ekki einungis til hans til að fá flotta klippingu heldur geta þeir létt á hjarta sínu í stólnum með hvað sem þeim er efst í huga þá stundina. Myndin hefur hlotið fjórar tilnefningar sem besta heimildarmyndin á Danish Film Awards, Nordisk Panorama, Oslo Pix og CPH:DOX. https://www.youtube.com/watch?v=LoLZsLpWif8 Humanity on Trial Besta myndin að mati áhorfenda á Nordisk Panorama var Humanity on Trial eftir Jonas Bruun. Myndin fylgir ungum Dana Salam Aldeen sem ásamt öðrum vaktaði strendur Grikklands til þess að koma flóttafólki í lífsháska til hjálpar. Kvöld eitt þegar hann leitar fjölskyldu sem er týnd á sjó er hann handtekinn og gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðardóm fyrir smygl í grísku fangelsi. https://www.youtube.com/watch?v=nU7FciL1UWI Lindy the Return of Little Light Að lokum er það Lindy the Return of Little Light sem vann Best New Nordic Voice eftir Ida Persson Lännerberg en það er hins vegar framleiðandinn China Åhlander sem fylgir myndinni til landsins. Myndin fjallar um listamanninn Lindy sem hefur alltaf verið öðruvísi og aldrei passað inn í fjöldann. Vegna stöðu fjölskyldu sinnar hefur hann aldrei tjáð sig um bakgrunn sinn en nú hefur leikhús í Berlín beðið hann um koma fram sem hann sjálfur og segja sína sögu sem mun breyta öllu. https://www.youtube.com/watch?v=MjWaCmyk7Kk&t=3s

Verðlaunaðar gamanmyndir á Stockfish!

2/6/2020

Þrjár gamanmyndir hafa verið valdar inn á hátíðina sem samtals hafa hlotið 39 tilnefningar árið 2019 og unnið til fjölda verðlauna. Þykir það heldur óvenjulegt fyrir gamanmyndir en ekki er mjög algengt að myndir í þeim flokki hljóti tilnefningar einhverra hluta vegna. Þessar þrjár eru því vel þess virði að sjá og hressa upp á hláturtaugarnar í leiðinni. Extra Ordinary Fyrst má nefna myndina Extra Ordinary eftir leikstjórana Enda Loughman og Mike Ahern. Salurinn hefur gjörsamlega hlegið frá upphafi til enda á sýningum til þessa. Sagan fjallar um skyggna konu sem starfar sem ökukennari en er hins vegar ekkert endilega hrifin af þeim hæfileikum sem hún er búin. Hún ákveður þó að hjálpa ungri stúlku sem haldin er illum anda. Þykir handritið einstaklega vel skrifað og leikurinn frábær. Það er ekki að ástæðulausu sem myndin hefur tekið heim 10 verðlaun af 14 tilnefningum. Þar af tvenn áhorfendaverðlaun og nokkur sem besta myndin. https://www.youtube.com/watch?v=8V1dEsZAQyg It Must Be Heaven It must be heaven þykir einnig mikill hláturtaugakitlari en hún fjallar um palestínskan mann sem flýr heimaland sitt í leit að nýjum heimahögum. Svo virðist þó sem Palestína fylgi honum við hvert fótspor því hvar sem hann kemur er eitthvað sem minnir hann á heimalandið. Það er verðlaunaleikstjórinn Elia Suleiman sem stendur á bak við myndina sem hefur hlotið alls 9 tilnefningar og þrenn verðlaun. Myndin vann meðal annars FIPRESCI Prize á Cannes. https://www.youtube.com/watch?v=w6blvldmt6c Give Me Liberty Síðast en ekki síst er það Bandaríska myndin Give me liberty eftir Kirill Mikhanovsky. Enn ein gamanmyndin með bunka af tilnefningum. Alls 13 tilnefningar og þar af 5 verðlaun. Myndin fjallar um sjúkraflutningamann, í einni helstu aðskilnaðarborg Bandaríkjanna, sem stendur frammi fyrir snúinni ákvörðun þegar óeirðir brjótast út. Ákvörðun sem fólk, sem vill geðjast öllum og á erfitt með að segja nei, vill aldrei þurfa að standa frammi fyrir. En þetta tvennt á einmitt við um aðal söguhetjuna. https://www.youtube.com/watch?v=YR8nVCExVo4&t=41s Þessar þrjár eru tilvalið tækifæri fyrir listræna kvikmyndaunnendur að draga hvern sem er með sér með sér í bíó.

Verðlaunamyndirnar BACURAU og SYNONYMS láta engan ósnortinn!

1/30/2020

Bacurau vann dómnefndarverðlaunin á Cannes í fyrra og Synonyms Gullbjörninn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Báðar eru heldur óvenjulegar sögur með undirliggjandi pólitískri ádeilu. Synomyns, eftir Nadav Lapid, fjallar um tilvist milli tveggja menningarheima án þess að eiga í raun einhvers staðar heima. Myndin á rætur sínar að rekja til persónulegrar reynslu leikstjórans sem flúði heimaland sitt á sínum tíma. “Einn daginn var eins og það kallaði til mín rödd. Svona svipað og hjá Jóhönnu af Örk og Abraham. Ég fann að ég þurfti að fara frá Ísrael. Strax og að eilífu. Slíta mig upp frá rótum, skera á öll bönd við heimalandið og flýja örlög þess. Tíu dögum síðar lennti ég á Charles-de-Gaulle flugvellinum í Frakklandi. Ég valdi Frakkland vegna aðdáunar minnar á Napóleon, “pasjón” fyrir Zidane og Godard mynda sem ég hafði séð tveimur mánuðum áður. Ég var án landvistarleyfis og kunni einungis nokkur orð í frönsku en ég var staðráðinn í að snúa aldrei aftur heim og lifa og deyja og í París.” Þótt sagan eigi rætur að rekja til reynsluheims leikstjórans er hún langt frá því að vera endursögn á einhverju sem gerðist í raunveruleikanum. Nadav notfærir sér skáldskap og ljóðræna tjáningu til að skapa sögu sem er stærri en hann sjálfur. https://www.youtube.com/watch?v=9u1HtImIb6s&t=4s Bacurau er samstarfsverkefni vinanna Kleber Mendonca Filho and Juliano Dornelle. Hugmyndin að kvikmyndinni fæddist fyrir ellefu árum þegar vinirnir voru saman á kvikmyndahátíð í Brasilíu. “Hátíðin var tilkomumikil og í fullkominni andstæðu við umhverfið sem bar fyrir augu okkar á hverjum degi. Bacurau varð til út frá því sem við urðum vitni að og ákveðnum pirringi og löngun að ná fram hefndum á hendur fólki sem álítur fólk sem skipar þennan afskekta stað í veröldinni vera “einfalt”, “fyndið” og “viðkvæmt”. Staðreyndin er sú að fólkið sem tilheyrir þessu samfélagi er alveg jafn margbrotið og áhugavert eins og annars staðar.” Kleber og Juliano langaði að gera mynd sem þeim báðum langaði að sjá og útkoman var Bacurau. Suður Amerískur vestri sem gerist í framtíðinni í einstaklega retró framsetningu. https://www.youtube.com/watch?v=Fhjqvb60LLw Kaupa miða hér.

MONOS og THE PAINTED BIRD - fyrstu titlar Stockfish 2020 kynntir!

1/27/2020

Monos og The Painted Bird eru báðar áhrifaríkar verðlaunamyndir sem eiga það sameiginlegt að hreyfa hressilega við áhorfendum á nýstárlegan máta. Gestir Stockfish eiga svo sannarlega von á magnaðri dagskrá í ár. The Painted Bird, eftir leikstjórann Vacláv Marhhoul, hefur vakið mikla athygli fyrir áhrifaríka framsetningu. Handritið er byggt á samnefndri skáldsögu Jerzy Kosiński, um ungan dreng af gyðingaættum sem sendur er af foreldrum sínum í fóstur til frænku sinnar í Austur Evrópu til að forða honum frá ofsóknum á hendur Gyðinga. Stuttu síðar fellur frænkan skyndilega frá og drengurinn endar á flakki um harðsvíraða veröld stríðshrjáðs lands. Upptökutæknin sem notast er við er mjög sjaldgæf í dag og segir Vacláv, leikstjóri myndarinnar, þetta um ástæður þess: “Við skutum myndina á 35mm í hlutföllunum 1:2.35 á svart hvíta filmu því það er svo tilfinningaríkt format. Ekkert annað format getur fangað af svo mikilli nákvæmni bæði fegurð og ljótleika þess sem birtist á skjánum.” https://www.youtube.com/watch?v=ECUiSb2WEvU Kólumbíska kvikmyndin Monos eftir leikstjórann Alejandro Landes er einnig stríðsdrama sem hefur ekki síður vakið athygli og stillir einnig saman barnungum persónum í stríðshrjáðu umhverfi. Sagan fjallar um hóp skæruliða sem vart eru komnir af barnsaldri. Þeir hafa í haldi gísl og sitja um hann vörð á fjarlægum fjallstindi í Kólumbíu. Óvænt launsátur verður til þess að þeir þurfa að flýja inn í frumskóginn þar sem hremmingar verða þess valdandi að rækilega hriktir í stoðum hópsins og grefur undan upprunalega markmiði hans. Alejandro rýnir í kaótíska stríðsþoku frá sjónarmiði unglinga og nýtir til þess bæði vana og óvana barnunga leikara sem saman skapa grimmilegt og óútreiknanlegt umhverfi þar sem allt getur gerst. Jafnvel friður. Alejandro leikstjóri myndarinnar hefur þetta segja um hvað kveikti neistann að tilurð myndarinnar. “Borgarstyrjöld hefur geisað í Kólumbíu óendanlega lengi milli margra ólíkra hópa: mismunandi hópa málaliða, skæruliða, fíkniefnakónga, stjórnvalda og erlendra afla. Allt og allir virðast vera í hár saman og sú veika von um frið sem er í loftinu virðist aldrei verða að veruleika.” https://www.youtube.com/watch?v=disclpVzoMQ Bæði Monos og Painted Bird spila á strengi sakleysis og ofbeldis á óvægan máta en eru þó gjörólíkar myndir sem hafa báðar unnið til virtra verðlauna. Gestir Stockfish verða ekki sviknir af þessum tveimur. Fleiri spennandi titlar verða kynntir fljótlega.

OPIÐ FYRIR UMSÓKNIR í SPRETTFISK - stuttmyndakeppni Stockfish & KUKL!

1/22/2020

Kvikmyndagerðarfólk getur nú sent inn myndir í Sprettfisk, stuttmyndakeppni Stockfish. Nýbreytni er þetta árið að myndirnar þurfa ekki að vera Íslandsfrumsýndar heldur geta allar myndir sem voru opinberlega frumsýndar 2019 og síðar tekið þátt. Markmið keppninnar er að vekja athygli á ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki og hvetja til frekari dáða með verðlaunum sem leggja grunninn að næsta verkefni. Marzibil Sæmundardóttir framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að Stockfish hafi viljað gefa fleirum kost á þátttöku án þess að takmarka möguleika þeirra á öðrum hátíðum. "Það er mikilvægt fyrir upprennandi kvikmyndagerðarfólk að geta sýnt verk sín á fleiri en einni íslenskri hátíð. Þess fyrir utan viljum við verðlauna það besta sem var framleitt á síðasta ári en ekki takmarka okkur við ósýndar myndir." Sú stuttmynd sem valin verður besta mynd Sprettfisks fær í verðlaun eina milljón króna úttekt hjá Kukl í formi tækjaleigu á kvikmyndabúnaði en Kukl er stærsta tækjaleiga landsins sem sérhæfir sig í þjónustu við kvikmynda- og sjónvarpsgerð. Sigurvegari síðasta árs var myndin XY eftir Önnu Karín Lárusdóttur og hefur hún síðan farið á níu kvikmyndahátíðir. Það er því til mikils að vinna og þess má geta að allar myndirnar sex sem valdar eru fara á ferðalag um Norður Ameríku og Kanada, með Taste of Iceland ári síðar, sem fulltrúar íslenskrar kvikmyndagerðar. Inntökuskilyrði Stuttmyndirnar mega vera að hámarki 30 mínútur og gerir hátíðin þá kröfu að myndirnar hafi komið út árið 2019 eða síðar. Aðeins íslenskar stuttmyndir koma til greina, eða myndir sem skarta íslenskum leikstjórum eða framleiðendum. Myndin þarf auk þess að vera með enskum texta. Umsóknir sendist á stockfish@stockfishfestival.is merktar: SPRETTFISKUR, fyrir 20. Febrúar ásamt meðfylgjandi upplýsingum: Nafn myndar (ef hún ber ekki enskt heiti þarf það að fylgja með)Nafn leikstjóraNafn framleiðandaLengd myndarStutt synopsis (á ensku og íslensku)ÚtgáfudagsetningHlekkur á myndina ásamt lykilorði ef þarfTengiliðaupplýsingar