Sýningin er í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands
Fyrir sýninguna verða sýndar einstakar myndir af Ósvaldi Knudsen við störf og Gunnar Tómas Kristófersson sérfræðingur á Kvikmyndasafni Íslands kynnir kvikmyndagerð Ósvalds.
Ósvaldur Knudsen (1899 – 1975)
Ósvaldur Knudsen hóf ekki kvikmyndagerð fyrr en hann var kominn hátt á fimmtugsaldur. Hann hafði verið málarameistari og rekið eigið fyrirtæki þegar hann eignaðist sína fyrstu kvikmyndatökuvél. Eftir að fyrsta myndin hans kom út, um eldgosið í Heklu árið 1947, héldu Ósvaldi engin bönd og varð hann einn af duglegustu kvikmyndagerðarmönnum þjóðarinnar. Kvikmyndaferill Ósvalds hefur ekki fengið mikla umfjöllun og á þessari sýningu verða tvær af hans áhugaverðustu myndum sýndar. Í þeim báðum vann hann með raftónlistarmanninum Magnúsi Blöndal og skapar með honum dulúðlegan heim fullan af leyndardómum og kröftum að handan.