Í samstarfi við Menningarhátíðina Uppskeru er boðið til málþings um inngildingu, aðgengi og birtingarmyndir fatlaðs fólks í kvikmyndum og sjónvarpi. Hvernig lítur veröldin út frá sjónarhóli fatlaðs fólks og hvernig tryggjum við að öll fái að spegla sig í leiknu íslensku efni? Hvernig ábyrgjumst við aðgengi og sýnileika fatlaðra leikara og höfunda? Hver segir söguna? Frá hvaða sjónarhorni er hún sögð? Sjónarhorni fylgir vald. Kamerunni fylgir vald. Hvar erum við stödd í þessum efnum? Hvert viljum við fara og hvernig ætlum við að komast þangað?
Flutt verða erindi og gjörningar auk pallborðsumræðna. Fram koma Vigdís Jakobsdóttir, Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, Þorsteinn Sturla Gunnarsson og Ísold Uggadóttir. Helga Rakel Rafnsdóttir, kvikmyndagerðarkona stýrir viðburðinum.
Plantan kaffihús býður gestum upp á ljúffenga súpu.
Viðburðurinn er haldinn í tengslum við menningarhátíðina Uppskeru. Tilefni hátíðarinnar er 20 ára afmæli fötlunarfræða við Háskóla Íslands. Hátíðinni er ætlað að vekja athygli á framlagi fræðafólks, samtaka fatlaðs fólks og fatlaðs listafólks til íslenskrar menningar.