Kvikmyndatónlist – virði og vægi

Dagsetning

11. apríl

Staðsetning

Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5

Tími

18:00-19:30

Kynnir

Colm O’Herlihy

Í tilefni af Stockfish kvikmyndahátíðinni býður Tónlistarmiðstöð upp á pallborðsumræður undir yfirskriftinni “Kvikmyndatónlist – virði og vægi”.

Þungavigtarfólk úr íslenska tónlistar- og kvikmyndaiðnaðinum kemur þar saman til að ræða hlutverk og gildi tónlistar í kvikmyndum, réttindamál, samningsferla og samstarf og hlutverk tónskálda, leikstjóra, tónlistarstjóra og annarra sem koma að vali og gerð tónlistar fyrir kvikmyndir. Í pallborðinu sitja Grímar Jónsson, framleiðandi, Ugla Hauksdóttir, leikstjóri og Herdís Stefánsdóttir, tónskáld. Umræðum stjórnar Colm O’Herlihy.

Viðburðurinn er ætlaður tónskáldum, leikstjórum, framleiðendum og öðrum sem starfa eða hyggja á störf í þessum geira en er þó öllum opinn.

Að loknum umræðum býður Record in Iceland upp á léttar veitingar, þar sem gestir fá tækifæri til spjalla saman við aðila úr bæði kvikmynda- og tónlistargeiranum.

Viðburðurinn fer fram á ensku

 

Um þátttakendur


Colm O´Herlihy
 er meðstofnandi tónlistarfyrirtækisins INNI ásamt Atla Örvarssyni. Frá stofnun þess árið 2019 má segja að fyrirtækið hafi gjörbylt íslenskum tónlistariðnaði og blásið til gríðarlegrar sóknar á sviði tónlistarforlagningar. Frá stofnun fyrirtækisins hefur INNI  tekið að sér verkefni fyrir stóra alþjóðlega miðla á borð við Apple, HBO, Netflix og Disney. INNI House, sem opnaði árið 2022 hýsir jafnframt 9 upptökuver þar sem mörg helstu kvikmyndatónskáld landsins vinna.

Colm kemur einnig að ýmsum greinum tengdum iðnaðinum, meðal annars sem fulltrúi í Nordic Publishers Sync Reference Group og sem þátttakandi í European Music Business Task Force á vegum Music Cities Network.

Ugla Hauksdóttir er íslenskur handritshöfundur og leikstjóri. Meðal þátta sem hún hefur leikstýrt eru The Power (Sister Pictures & Amazon Studios, 2023), Hanna (Amazon Studios, 2020), Snowfall (FX, 2021) og Ófærð (RVK Studios, 2019).

Um þessar mundir er Ugla að leggja lokahönd ái fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, The Fires, en myndin er byggð samnefndri metsölubók eftir Sigríði Hagalín. Einnig er hún í þann mund að klára tökur á sjónvarpsþáttunum Alien: Earth, sem eru skapaðir af Noah Hawley og framleiddir af FX í samstarfi við Ridley Scott.

Ugla útskrifaðist með MFA-gráðu í handritagerð og leikstjórn frá Columbia háskólanum og er  jafnframt fyrsta íslenska konan til að ganga í Directors Guild of America.

Herdís Stefánsdóttir lauk MA-námi í kvikmyndatónsmíðum frá New York University árið 2017 og hefur meðal annars samið tónlist fyrir síðustu tvær kvikmyndir leikstjórans M. Night Shyamalan, Knock at the Cabin og Trap. 

Hún hefur einnig samið tónlist fyrir fjölda stuttmynda sem hafa verið sýndar á hátíðum á borð við Berlinale, TIFF, Sundance og Palm Springs og hlotið fyrir störf sín ýmsar tilnefningar og verðlaun. Má þar til að mynda nefna Íslensku tónlistarverðlaunin, Edduverðlaunin, World Soundtrack Awards og Hollywood Music in Media Awards.

Herdís gefur einnig út tónlist undir listamannsnafninu Kónguló og vinnur hún nú að sinni fyrstu sólóplötu. Hún var áður hluti af raftónlistar-tvíeykinu East of My Youth sem kom fram á hátíðum eins og SXSW, Eurosonic og Iceland Airwaves.

Grímar Jónsson er margverðlaunaður íslenskur kvikmyndaframleiðandi og stofnandi Netop Films. Myndir sem hann hefur framleitt hafa verið frumsýndar á hátíðum á borð við Cannes, Venice Film Festival og Toronto International Film Festival og hlotið yfir 50 alþjóðleg kvikmyndaverðlaun. Meðal þeirra eru Hrútar (Un Certain Regard – Cannes 2015), Undir trénu (Best Narrative Feature – Hamptons International Film Festival) og Héraðið (TIFF 2019).

Grímar er einnig meðstofnandi Sarimar Films ásamt framleiðandanum Söru Nassim.