MEISTARASPJALL – Hefst 16:30
Við val á leikurum í verk er farið yfir mikinn fjölda andlitsmynda, ferilsskráa og áheyrnaprufa til að finna rétta fólkið til að glæða sögupersónur kvikmynda- eða sjónvarpsverkefna holdi og blóði. Til að svo megi verða þarf nána samvinnu við leikstjóra, framleiðendur og handritshöfunda og allir þurfa að ganga í takt, hafa sömu sýn. Það krefst þess að leikaravalstjóri þarf að geta tengst fagfólki innan geirans, hafa hæfileika til að uppgötva nýtt og upprennandi hæfileikafólk og stundum þarf að taka óvenjulegar ákvarðanir til að þjóna verkefninu sem best. Þá þarf að huga að fjölbreytni í leikaravali til að endurspegla sem best margbreytileika samfélagsins.
Leikaraval er listform. Það snýst svo sannarlega ekki aðeins um að para saman andlit og hlutverk heldur felur það í sér að finna réttu blönduna af hæfileikum, sjarma og trúverðugleika. Þegar vel tekst til skilar það sér í stórbrotinni upplifun áhorfenda. Rétt leikaraval getur bætt frásögnina og fært alla framleiðslu á hærra plan.
Í þessu meistaraspjalli mun Ólafur Darri Ólafsson, leikari, framleiðandi og handritshöfundur, ræða við Alexu L. Fogel sem hlotið hefur fjölda Artios og Emmyverðlauna fyrir hlutverkaval. Saman munu þau deila sinni innsýn og reynslu af þessu ferli.
PANEL – Hefst 17:30
Mikilvægt er að ná til fjölbreyttari hóps leikara í áheyrnarprufur fyrir alls kyns verkefni. Það hagnast bæði leikurum, leikstjórum og framleiðendum.
Á viðburðinum munu helstu fyrirtæki Íslands í leikaravali ræða um hvernig er hægt að ná til sem flestra leikara og tala um aðferðir sínar til að auka fjölbreytni leikara í kvikmyndum og þáttaröðum.
Alexa L. Fogel hefur hlotið þrenn Emmy verðlaun fyrir hlutverkaval sitt og þrettán tilnefningar. Hún hefur einnig hlotið átta Artios verðlaun frá Leikaravalsfélagi Bandaríkjanna (e. Casting Society of America).
Alexa hefur unnið við fjölda sjónvarpsþátta, meðal annars Feud, Capote Vs. The Swans, Black Bird, Atlanta, We Own This City, Ozark, Pose, The Politician, The Plot Against America, The Outsider, The Deuce, Warrior, Quarry, Banshee, Treme, Ripper Street, The Wire, Generation Kill, Show Me A Hero, og Oz.
Auk þess hefur Alexa unnið við kvikmyndir eins og Rob Peace, Creed III, Anything’s Possible, Judas and the Black Messiah, The Prom, The Boy Who Harnessed the Wind, Too Big to Fail, Our Brand Is Crisis, The Sitter, og Red Tails.
Alexa framleiddi Netflix heimildarmyndina “A Secret Love” sem fjallar um 72 ára samband Terry Donahue og Pat Henschel.