
ÍSLENSKUR HEIÐURSGESTUR: DÓRA EINARSDÓTTIR
Dóra Einars / Doris Day & Night á að baki 50 ára feril í heimi kvikmynda, leikhúsa, óperu og balletts. Hún hefur tekið þátt í alþjóðlegum markaðs- og auglýsingaherferðum og skapað sér nafn sem listrænn stjórnandi, búningahönnuður, framleiðandi og leikstjóri.
Dóra menntaði sig í Berlín, London og New York sem leikmynda- og búningahönnuður og tók svo listasögu í Háskólanum í Lundi.
Hún var hluti af íslenska kvikmyndavorinu og barðist fyrir réttindum kvikmyndagerðafólks frá upphafi. Doris Day & Night fatalínan kom fram við hönnunarvinnu í kvikmyndinni Með allt á hreinu, þar sem hún lagði nótt við dag við að hanna búninga. Dóra hefur unnið með mörgum þekktum listamönnum hér á landi og erlendis, svo sem Mezzoforte, Grýlunum, Stuðmönnum, Bubba Morthens, Ego, Jet Black Joe, Rickshaw, Rolling Stones, Grace Jones og Depeche Mode.
Dóra starfaði einnig lengi fyrir MTV Europe sem listrænn stjórnandi (e. Creative Director) og framleiðandi (e. Producer). Þar gerði hún meðal annars sjónvarpsþátt um íslensku tónlistarsenuna, sem hafði ekki verið gert áður, og átti eflaust þátt í uppgangi senunnar erlendis.
Dóra hefur unnið fjölbreytt störf í kvikmyndabransanum og barist fyrir framgangi fagsins frá upphafi. Framlag hennar og arfleið til kvikmyndagerðar bæði hér heima og erlendis á sér fáar hliðstæður og fyrir það á hún heiður skilið.