
Ný framkvæmdastjórn Stockfish Film Festival
Breytingar hafa orðið á framkvæmdastjórn Stockfish kvikmyndahátíðarinnar. Dögg Mósesdóttir, sem hefur mikla reynslu á sviði kvikmyndahátíða hefur tekið við taumunum og aðstoðarframkvæmdastjórn er í höndum Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur, sem hefur víðtæka reynslu í viðburðarstjórnun. Dögg er leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur en verkefni hennar ná yfir breiðan vettvang listarinnar, því hún hefur unnið að leiknu efni, heimildamyndum, tónlistarmyndböndum og fleiru. Hún er eigandi framleiðslufyrirtækisins Northern Wave Productions og hefur verið drífandi afl hjá Wift á Íslandi, m.a. verið formaður stjórnar í fjöldamörg ár. Hún stofnaði og stýrði Northern Wave Film Festival, þar sem hún setti m.a. verkefnið „Norrænar Stelpur skjóta“ á legg. Dögg tók þátt í stofnun Stockfish og var ein af stjórnarmeðlimum fyrstu ár hátíðarinnar. Halla Þórlaug er með BA gráðu í myndlist og MA gráður í ritlist. Hún hefur stýrt fjölda listtengdra viðburða, meðal annars bókmenntahátíðinni Queer Situations og starfað hjá RÚV við dagskrárgerð. Þær stöllur eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á Stockfish kvikmyndahátíðinni.
Fráfarandi framkvæmdastjórar eru þær Carolina Salas og Hrönn Kristinsdóttir. Eiga þær miklar þakkir skildar fyrir að lyfta grettistaki í framkvæmd Stockfish kvikmyndahátíðinnar en þær stýrðu tveimur einstaklega vel heppnuðum hátíðum, fengu frábæra gesti, stýrðu vönduðum bransadaga dagskrám og er vert að geta þess að undir þeirra stjórn rúmlega tífaldaðist gestahópur Stockfish. Þær hafa nú horfið til annarra starfa innan kvikmyndaiðnaðarins og óskar stjórn þeim velfarnaðar um leið og þeim er þakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag til hátíðarinnar.