Waves – til heiðurs Ásgeiri H Ingólfssyni

by

Ásgeir H Ingólfsson var einstakur menningarrýnir og framlag hans til íslenskar kvikmynda- og menningarumræðu almennt átti sér fáar hliðstæður. Ásgeir var gagnrýnandi, blaðamaður ljóðskáld, bókmenntafræðingur og hélt úti menningarblogginu Menningarsmygl frá Prag þar sem hann var búsettur. Ásgeir var fastagestur í kvikmyndahúsum og á kvikmyndahátíðum landsins en Ásgeir lést skyndilega eftir stutt veikindi síðastliðinn janúar. Sérstök söfnunarsýning á tékknesku kvikmyndinni Waves eftir Jirí Mádl verður haldin sunnudaginn 6.apríl klukkan 14.30 en allur ágóði af seldum miðum rennur í sjóð tileinkuðum ævistarfi Ásgeirs.

„Við þurfum að smygla orðum, hugsunum og menningu yfir landamæri, á milli sálna, á milli okkar. Á milli okkar og hinna, hverjir sem hinir kunna að vera. Við þurfum að tala saman og skrifast á og hvíslast á.“ Ásgeir H Ingólfsson.

Um kvikmyndina:

Myndin segir frá tveimur bræðrum sem flækjast inn í raunverulega atburði í kringum hóp fréttamanna á alþjóðlegri ritstjórn Tékkóslóvakíska útvarpsins á árunum 1967-1968. Persónur myndarinnar eru byggðar á raunverulegum meðlimum ritstjórnar International Life, undir forystu Milan Weiner.

Myndin hlaut áhorfendaverðlaun á hinni virtu Karlovy Vary kvikmyndahátíð árið 2024. Hún var valin sem fulltrúi Tékklands til Óskarsverðlauna sama ár.

Waves er aðsóknarmesta kvikmynd í sögu Tékklands.

Tryggðu þér miða hér!

Allur ágóði miðasölu rennur í Minningarsjóð Ásgeirs H Ingólfssonar. Lágmarkssgjald eru 1000 krónur en hægt er að bæta við styrktarupphæðina við miðakaupin.