Skyggnst bakvið tjöld hjá myndinni Klondike fréttaflutningsins
„Myndin mín Klondike tekur áhorfandann baksviðs við fréttirnar“, segir úkraínski leikstjórinn Maryna Er Gorbach í viðtali við „Cineuropa“ um mynd sína Klondike (2022), sem er jafnframt opnunarmynd Stockfish í ár. Klondike fjallar um úkraínska fjölskyldu sem býr á landamærum Úkraínu og Rússlands í upphafi Rússó-Úkraínu stríðsins sem hófst árið 2014 og er að mörgu leyti undanfari að því hræðilega stríði sem nú geisar í Úkraínu.
Eftirvænting sem varð að ótta
Í myndinni fylgjumst við með verðandi foreldrunum Irku og Tolik sem búa í Donetsk-héraðinu í austurhluta Úkraínu við rússnesku landamærin sem var og er umdeilt yfirráðasvæði í tengslum við stríðið. Eftirvænting þeirra eftir að fá frumburð sinn í hendurnar breytist skyndilega í ótta þegar þau lenda í miðju vettvangs alþjóðlega flugslyssins „MH17“. Irka og Tolik verða því fyrir súrrealísku áfalli sem flak farþegaþotunnar og syrgjandi fjölskyldumeðlimir þeirra látnu allt í kringum þau undirstrika. Irka neitar að yfirgefa hús sitt þrátt fyrir að það hafi orðið fyrir sprengingu og sé í þann mund að vera hertekið af vopnuðum hersveitum. Hún reynir að koma á friði milli eiginmanns síns og bróður, sem grunar þau um að ætla að svíkja Úkraínu, með því að biðja þá um að gera við húsið.
Hin margbrotnu áhrif stríðs
„MH17“ vísar til malasísku flugvélarinnar sem var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur þann 17. júlí 2014 en var skotin niður á meðan hún flaug yfir austurhluta Úkraínu. Allir um borð, 283 farþegar og 15 áhafnarmeðlimir létust í slysinu en um er að ræða mannskæðustu skotárás á farþegarflugvél til dagsins í dag. Rannsókn um tildrög slyssins leiddi í ljós að vélin hafði verið skotin niður með flugskeyti af rússneskum aðskilnaðarsinnum en nokkrum mánuðum fyrir slysið hafði stríð milli Rússland og Úkraínu brotist út af völdum átaka um yfirráð Krímskaga og Donbas-svæðisins. Í kjölfar styrkingu rússneskra hersveita á landamærum Rússlands og Úkraínu síðla árs 2021 jukust átökin verulega þegar Rússar hófu innrásina sem nú er enn í gangi, þann 24. febrúar 2022.
Í Klondike fylgjumst við með því hvernig saklaust fólk verður fyrir barðinu á stríðinu sem hófst 2014, á margbrotin hátt. Vinir Tolik sem eru aðskilnaðarsinnar búast við því að hann gangi til liðs við þá á meðan bróðir Irku grunar þau um föðurlandssvik. Ásamt röð áfalla sem þau verða fyrir eru þau einnig milli steins og sleggju innan átakanna. Það er því allt annað en auðvelt fyrir verðandi foreldra að fóta sig í þessum nýja stríðshrjáða veruleika.
Spurt og svarað með Oksönu Cherkashinu
Aðalleikona myndarinnar, hin úkraínska Oksana Cherkashina, verður viðstödd opnunarsýninguna og verður með „spurt og svarað“ eftir hana. Hún er fædd árið 1988 og hefur gert það gott, bæði í kvikmyndum og leikhúsi. Hún útskrifaðist árið 2010 frá Alþjóðlega listaháskólanum í Kharkiv og er fastráðin í Kyiv leikhúsinu. Hvað varðar kvikmyndir er hún einna þekktust fyrir hlutverk sitt í kvikmynd Natalie Vorozhbyt Bad Roads (2020) sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Fyrir það hlutverk vann hún Kinokolo verðlaunin fyrir bestu leikkonuna árið 2020.
Mynd sem endurspeglar það sem fólkið er að ganga í gegnum
Ásamt dómnefndarverðlaunum á Berlinale hátíðinni hefur Klondike einnig hlotið verðlaun fyrir leikstjórn á Sundance hátíðinni. Leikstjóri myndarinnar, Maryna Er Gorbach hefur áður leikstýrt verðlaunamyndum á borð við myndirnar Omar and Us (2019), Love Me (2013) og Black Dogs Barking (2009). Hún útskrifaðist frá pólska kvikmyndaskólanum Andrzej Wajda Master School of Film Directing og hefur verið meðlimur evrópsku kvikmyndaakademíunnar síðan 2017. Í „spurt og svarað“ eftir frumsýninguna á Sundance sagðist Maryna hafa dregið mikinn innblástur af eigin lífi. Hún segir jafnframt að myndin sé „listrænt verk sem endurspeglar það sem fólkið í Úkraínu er að ganga í gegnum, sérstaklega börnin sem búa þar.“
Í umsögn franska kvikmyndagagnrýnandans Elenu Lazic fyrir „Cineuropa“ segir að Klondike sé bæði málefnaleg og reið mynd um „stríð séð innan frá, þar sem það þeysist inn í svæði og íbúa þess, í ruglandi, stighækkandi ofbeldi. Grimm og átakanleg öfl lífs og andspyrnu.“ Myndin á því svo sannarlega ríkt erindi við samtímann og veitir innsýn inn í líf hversdagslegs fólks og saklausra borgara sem, eins og óhugnanlegur fjöldi manns á þessu augnabliki, verða fyrir barðinu á hryllilegu stríði. Fyrir þau okkar sem fylgjast með stöðugum fréttaflutningnum úr fjarlægð er myndin jafnframt dýrmætt tækifæri til að, eins og Gorbach orðar það, skyggnast bak við tjöld fréttanna.