FYRSTU ÞRJÁR MYNDIRNAR OPINBERAÐAR

Það er okkur sönn gleði að svipta hulunni af fyrstu þremur myndunum sem valdar hafa verið á Stockfish kvikmyndahátíðina í apríl.

Á hátíðinni verður kastljósinu beint að alþjóðlegri kvikmyndagerð, og sýndar myndir frá öllum heimshornum með það að markmiði að auka sýnileika og áhuga á kvikmyndum frá öðrum menningarheimum.

FOUR DAUGHTERS

Leikstjóri: Kaouther Ben Hania

Það skiptast á skyn og skúrir í lífi Olfu, túnískrar konu og móður fjögurra dætra.  Elstu dæturnar tvær láta sig hverfa einn góðan veðurdag til að ganga til liðs við Íslamska ríkið í Líbíu, og í þessari leiknu heimildarmynd segir Ben Hania sögu fjölskyldunnar sem er í senn uppfull af von, uppreisn, ofbeldi og systrakærleik. Myndin er tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildamyndin.

EXCURSION

Leikstjóri: Una Gunjak

Unglingsstúlka í Sarajevo, í leit að athygli og viðurkenningu, segist hafa misst meydóminn í ,,Sannleikanum og Kontór” með öðrum ungmennum. Föst í eigin lygi gerir hún sér upp þungun, og verður miðpunktur hneykslis og deilna sem fara hratt úr böndunum. Gunjac verður viðstödd hátíðina og tekur þátt í bransaviðburðum.

Una Gunjak, leikstjóri myndarinnar verður gestur hátíðarinnar og tekur þátt í opnum umræðum á Stockfish.

THE BURDENED

Leikstjóri: Arm Gamal

Hjón í Suður Yemen, Isra’a og Ahmed, berjast í bökkum við að veita þremur börnum sínum menntun og eðlilegt líf. Þegar þau komast að því að Isra gangi með fjórða barnið verða þau að taka erfiðar ákvarðanir með hagi fjölskyldunnar í huga, og um leið að kljást við álit þjóðfélags sem lítur þungunarrof hornauga.

SAMBAND EVRÓPSKRA KVIKMYNDAHÁTÍÐA

Evrópsk kvikmyndagerð skipar líka stóran sess á hátíðinni, en Stockfish hefur nú gengið til liðs við Samband evrópskra kvikmyndahátíða, ásamt GIFF hátíðinni í Sviss, Galway Film Fleadh á Írlandi, hinni þýsku Filmfest, Luxemborg City Film Festival, Midnight Sun hátíðinni  í Finnlandi, Athens International Film Festival í Grikklandi og Gijón á Spáni. Markmið sambandsins er að búa til vettvang þar sem meðlimir geta skipst á skoðunum, upplýsingum og kynnst menningu hvers annars, ásamt því að móta sameiginlega stefnu og sýn á hagsmunamálum í greininni. 

 

Lokað hefur verið fyrir umsóknir í Sprettfisk stuttmyndakeppnina. 75 myndir voru sendar inn, og mun valnefnd nú fara yfir þær og velja þátttakendur. Dómnefndir verða kynntar eftir valið. Markmið keppninnar er að vekja athygli á upprennandi kvikmyndagerðarfólki, en til að mynda keypti hið virta  þýska dreifingarfyrirtæki Kurzfilms á dögunum réttinn að myndinni Felt Cute eftir Önnu Katrínu Lárusdóttur, eins sigurvegaranna í fyrra.

 

Opið er fyrir innsendingar í ,,Verk í vinnslu” til 1. mars, en  með þátttöku gefst aðstandendum kvikmyndaverka sem ekki eru tilbúin til sýningar einstakt tækifæri til að kynna verkefni sín fyrir innlendum og erlendum fjölmiðlum, framleiðendum og öðrum áhugasömum. Mikill áhugi hefur myndast fyrir þessum viðburði undanfarin ár hjá erlendum blaðamönnum og listrænum stjórnendum annarra hátíða. Einnig er þetta kjörinn vettvangur fyrir kvikmyndagerðafólk alls staðar að til að hittast og mynda tengsl. Streymt verður beint frá atburðinum fyrir þá sem hafa ekki tök að mæta á staðinn í persónu.