Palestínskar kvikmyndir á Stockfish

Kvikmyndir búa yfir mætti og gefa fólki rödd, fólki sem áður hefur verið misskilið eða jafnvel undanskilið umræðunni. Á óróa tímum eins og nú ríkir í Palenstínu ber Stockfish skylda að varpa ljósi á kvikmyndir og kvikmyndagerðarfólk þaðan. Það er því Stockfish mikill heiður að sýna tvær kvikmyndir, eina heimildarmynd og eina leikna mynd, eftir palestínskt kvikmyndagerðarfólk sem ögra staðalímyndum og gefa innsýn inn í líf Palestínumanna. 

The Teacher

Leikstjóri: Farah Nabulsi

 

Palestínskur kennari reynir að samræma áhættusama þátttöku sína í pólitískri andspyrnu við nýtt sambandi sitt við sjálfboðaliðann Lisu og tilfinningalegan stuðning sinn við Adam, einn af nemendunum.

 

Farah Nabulsi, sem á ættir að rekja til Bretlands og Palestínu, er kvikmyndagerðarkona og aðgerðasinni sem berst fyrir mannréttindum. Kvikmyndin var tekin upp í Palestínu og gerist í nútímanum. Farah segir að kvikmyndin sé dramatísk og eigi sér stað í afar pólitísku landslagi. Myndin fjalli um jaðarsettar persónur og að gerð hennar hafi verið hennar leið til að takast á við ranglætið sem hún hefur orðið vitni að. 

Bye Bye Tiberias

Leikstjóri: Lina Soualem

 

Hiam Abbass fór frá heimabyggð sinni í Palestínu og skildi eftir móður, ömmu og sjö systur sínar til að eltast við drauma sína um að verða leikkona. Þrjátíu árum síðar snýr hún aftur ásamt dóttur sinni Linu sem er kvikmyndagerðarkona. Úr verður hjartnæm heimildarmynd um fjölskyldusögu fjögurra kynslóða hugrakkra kvenna frá Palestínu.

 

Lina Soualem er kvikmyndagerðar- og leikkona ættuð frá Frakklandi, Palestínu og Alsír en fædd og býr í París. Í myndinni fléttar hún saman gömlum og nýjum gögnum um fjölskyldu sína sem og skjalasafnsefni sem sum hver eru allt frá því fyrir stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Hún notar meðal annars ljóð og persónulegar frásagnir til að koma á framfæri hugleiðingum og sögu fjögurra kynslóða kvenna sem hafa lagt hart að sér við að reyna að bæta fyrir aðskilnað við fjölskyldumeðlimi sem hafa ýmist yfirgefið þær sjálfviljugir eða tilneyddir.