Stockfish opnar fyrir umsóknir

by

Stockfish kvikmynda- og bransahátíð hefur nú opnað fyrir umsóknir í þrjú lykilverkefni Bransadaga 2026: Handritasmiðjuna The Whale, Ný norræn verk í vinnslu, og Sprettfiskinn – keppni fyrir íslenskar stuttmyndir, tónlistarmyndbönd og tilraunaverk.

Stockfish kvikmyndahátíð 2026 fer fram dagana 19.–29. mars í Bíó Paradís í Reykjavík og Írland verður í brennidepli. Yfirskrift hátíðarinnar verður: 

Ríkari áhersla verður lögð á verkefni upprennandi hæfileikafólk frá Norðurlöndum og fyrstu myndir alþjóðlegra leikstjóra sem hlotið hafa verðlaun á þessu ári á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.

Hátíðin hefur sett saman nýtt dagskrárráð sem samanstendur af hópi alþjóðlegra leikstjóra og gagnrýnenda sem veita hátíðinni ábendingar um kvikmyndir sem hafa vakið athygli á kvikmyndahátíðum í ár.

Dagskrárráð Stockfish samanstendur af leikstjórunum Rúnari Rúnarssyni, Yrsu Roca Fannberg, Valdimar Jóhannsson, Hilke Rönnfield, Ragnari Bragasyni og Nönnu Frank Rasmussen formanni dönsku gagnrýnendasamtakanna.

Inngilding og aðgengi eru ,sem fyrr, sterkur liður í dagskránni og hátíðin hefur nú tekið upp og aðlagað aðgengisstefnu Listahátíðar Reykjavíkur sem lesa má um á heimasíðu hátíðarinnar hér: https://stockfishfestival.is/adgengisstefna/

Hátíðin er rekin af fagfélögum í kvikmyndagerð og leggur áherslu á að þjóna faginu og búa til vettvang fyrir grasrót kvikmyndagerðafólks, auk þess að opna á samtal við almenning um kvikmyndalistina. 

Við hvetjum handritshöfunda, leikstjóra og framleiðendur á öllum stigum ferils síns til að sækja um og taka þátt í þessu skapandi og alþjóðlega samtali innan kvikmyndagerðar. 

Frekari upplýsingar um umsóknarferli og Bransadaga hátíðarinnar má finna á stockfishfestival.is 

THE WHALE – Handritasmiðja á Stockfish 2026

Alþjóðleg smiðja fyrir reynda handritshöfunda. 

Stockfish kvikmyndahátíð hefur opnað fyrir umsóknir í alþjóðlegu handritasmiðjuna THE WHALE, sem fer fram í Reykjavík dagana 22.–25. mars 2026 á bransadögum hátíðarinnar.

Smiðjan er ætluð höfundum sem vilja þróa kvikmynda- eða sjónvarpsverk áfram með faglegri handleiðslu og í skapandi umhverfi þar sem unnið er að skýrum markmiðum, tengslamyndun og framleiðslumöguleikum.

Tina Gharavi, handritshöfundur og leikstjóri, leiðir smiðjuna. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og var meðal annars tilnefnd til BAFTA fyrir kvikmyndina I Am Nasrine

Smiðjan fer fram á ensku og er ætluð höfundum sem hafa skrifað að minnsta kosti eitt kvikmyndahandrit eða sjónvarpsþátt. Í lok smiðjunnar gefst þátttakendum tækifæri til að kynna verk sín fyrir fagfólki í greininni.

Umsóknarfrestur: 1.febrúar 2026

Nánar um smiðjuna hér!

Ný Norræn Verk í Vinnslu

Stockfish kvikmyndahátíð hefur opnað fyrir umsóknir fyrir Ný Norræn Verk í Vinnslu sem veitir upprennandi kvikmyndagerðarfólki á Norðurlöndum vettvang til að kynna fyrstu verkefni í þróun.

Sex verkefni verða valin til þátttöku frá öllum Norðurlöndunum. Þátttakendur fá handleiðslu og „pitch“ þjálfun áður en verkefnin eru kynnt opinberlega á viðburði sem fer fram í Norræna húsinu, þann 28. mars 2026, sem hluti af bransadögum Stockfish. 

Markmið verkefnisins er að efla sýnileika nýrra höfunda og tengja þau við framleiðendur og annað lykilfólk í kvikmyndageiranum og styðja þannig við norræna meðframleiðslu, kynningu og samstarf til framtíðar.

Umsóknarfrestur: 15.janúar. 2026

Frekari upplýsingar og umsóknarskjal:

https://stockfishfestival.is/verk-i-vinnslu-2026

Sprettfiskurinn 2026

Stuttmyndakeppni Stockfish kvikmyndahátíðar

Stockfish kvikmyndahátíð opnar nú fyrir innsendingar í Sprettfiskinn 2026, stuttmyndakeppni sem haldin verður í tólfta sinn dagana 19.–29. mars 2026 í Bíó Paradís.

Keppt er í fjórum flokkum:

– Leiknar stuttmyndir

– Heimildamyndir

– Tilraunamyndir

– Tónlistarmyndbönd

Verk skulu vera íslensk að uppruna og hafa ekki verið sýnd opinberlega á Íslandi áður. Um 20 verk verða valin til sýninga á hátíðinni.

Verðlaun eru veitt af RÚV og KUKL. Einnig verður veitt sérstök viðurkenning í nafni Evu Maríu Danielsdóttur.

Umsóknarfrestur: 15.janúar 2026

Frekari upplýsingar og umsókn hér!