KVIKMYNDAARFUR ÍSLANDS Í BRENNIDEPLI

Þann 17. júní næstkomandi merkir 80 ára afmæli lýðveldisins.

Af því tilefni býður Stockfish kvikmynda- og bransahátíð upp á sérstakar sýningar. Leikstjórarnir bjóða upp á Opin spjöll eftir sýningarnar.

Sýndar verða tvær merkilegar íslenskar kvikmyndir sem ekki hafa litið dagsins ljós í fjölda mörg ár;  Á köldum klaka (1995) eftir Friðrik Þór Friðriksson og Á hjara veraldar (1983) eftir Kristínu Jóhannesdóttur. Auk þess verður sérstök sýning á eldra efni sem leidd af sérfræðingi Kvikmyndasafns Íslands, Gunnari Tómasi Kristóferssyni.

Á köldum klaka (1995)

Leikstjóri: Friðrik Þór Friðriksson

Friðrik Þór tekur hér höndum saman við framleiðandann Jim Stark (Down By Law, Mystery Train) og leggur upp í ferð um þjóðvegi Íslands ásamt japanska popparanum Masatoshi Nagase. Nagase leikur ungan mann sem ferðast um Ísland í Citröen-bifreið til að halda minningarathöfn um foreldra sína sem létust á ferðalagi um Ísland. Ungi maðurinn þarf að takast á við íslenska veðráttu og á vegi hans verða mörg furðuleg fyrirbæri, bæði bandarískir túristar og íslenskir sviðahausar.

Sjálfsánægður leigubílstjóri þarf skyndilega að bregða sér á söngæfingu, útvarpið bilar (og spilar aðeins íslenska popptónlist) og bandarískir sveitasiðir skjóta upp kollinum á vetrarhátíð hjá Hallbirni Hjartarsyni.

Myndin lýsir á gamansaman hátt reynslu útlendinga af landi og þjóð og spurningin „How do you like Iceland?“ kemur ósjaldan fyrir.

Á hjara veraldar (1983)

Á hjara veraldar fyrsta kvikmynd Kristínar Jóhannesardóttur, vakti mikla athygli á sínum tíma fyrir nýstárleg efnistök og óvenjulega nálgun. Í myndinni stillir Kristín margvíslegum andstæðum saman og kafar í kjölinn á íslenskri þjóðarvitund.

 

Myndin er ljóðræn og Kristín skoðar hér á óhefðbundinn hátt sálarlíf persóna sinna. Söguþráðurinn spinnst einkum milli þriggja persóna, móður, dóttur og sonar. Inn í vef fjölskylduátaka fléttast ýmis mál, umhverfismál, sakamál og kynjamál og beiting valds í sinni víðtækustu mynd.

KVIKMYNDAARFURINN

KVIKMYNDASAFN ÍSLANDS MEÐ LEIÐSÖGN (GUIDED ARCHIVE SCREENING)

Vigfús Sigurgeirsson var einna fyrstur íslenskra kvikmyndagerðarmanna til að gera landkynningamyndir um Ísland sem sýndu þjóð í leit að sjálfstæði. Hann hafði mikil áhrif á hvernig embætti forseta Íslands var túlkað sem sérlegur ljósmyndari embættisins. Mikilvægt innlegg Vigfúsar fyrir menningararf þjóðarinnar var að festa á filmu hverfandi atvinnuhætti. Myndir hans spanna breitt tímabil um miðja 20. öldina og sýna samfélagið vaxa og dafna í gegnum mikilvæga atburði og fallegar svipmyndir. Sérfræðingur frá Kvikmyndasafni Íslands mun leiða sýninguna og kynnir um leið niðurstöður rannsókna Kvikmyndasafns Íslands á ævistarfi Vigfúsar.