Heiðursverðlaun Stockfish VEITT Í FYRSTA SINN

Heiðursverðlaun Stockfish verða veitt í fyrsta sinn í ár fyrir „Stórkostlegt framlag til kvikmyndaiðnaðarins“. Með þessum nýju verðlaununum vill hátíðin veita framúrskarandi fagfólki, af fræðasviðinu, úr framleiðslu, dreifingu, kynningu og kvikmyndahátíðum viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu kvikmyndaiðnaðarins.

heiðursverðlaunahafi stockfish 2023

Handhafi verðlaunanna í ár er enginn annar en írski framleiðandinn Mike Downey, en hann hlýtur verðlaunin fyrir ómetanlegt framlag til kvikmyndaiðnaðarins síðustu áratugi. Á áttunda áratugnum fékkst Mike Downey aðallega við leikhúsleikstjórn og framleiðslu í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og fyrrum Júgóslavíu. Síðar stofnaði hann ásamt öðrum og gaf út fagtímaritið Moving Pictures International. Það var svo árið 2000 sem Mike Downey stofnaði framleiðslufyrirtækið Film and Music Entertainment.

Síðan hefur Mike framleitt yfir 100 kvikmyndir í fullri lengd eftir leikstjóra á borð við: Peter GreenawayAgnieszka HollandJulien TemplePawel PaelikowskiAndrezej JakimowskiRajko GrlicJuraj JakubiskoFriðrik Þór Friðriksson og Stephan Daldry. Þar fyrir utan hefur hann framleitt myndir eftir fjölda leikstjóra um alla Evrópu, í Suður-Ameríku, Afríku og á Indlandi.

Nýleg verkefni sem hann hefur verið með í þróun hafa meðal annars verið í samstarfi við rithöfunda eins og: James Ellroy, Gunter Grass, heitinn, Thomas Keneally (Schindler’s List); höfund IDA og Rebecca Lenckiewicz, stofnanda VICE Group svo örfá nöfn séu nefnd.

Auk framleiðslu kvikmynda hefur Mike verið listrænn stjórnandi kvikmyndahátíða um nokkurra ára skeið, verið meðlimur í Evrópsku kvikmynda akademíunni í um aldarfjórðung og stjórnarmaður í næstum tvo áratugi. Árið 2020 var hann svo kjörinn formaður Evrópsku kvikmyndaakademíunnar. Áður var hann kosinn bæði í ráð og kvikmyndanefnd fyrir BAFTA.

Hér er aðeins stiklað á stóru en, auk þess fram hefur komið hér á undan, situr Mike í stjórn ICFR, alþjóðasamtaka sem tala og berjast fyrir kvikmyndagerðarfólki í hættu. Samtökin bregðast við hvers kyns ofbeldi og ofsóknum sem kvikmyndagerðarfólk verður fyrir og virkja alþjóðlegt samfélag kvikmyndagerðafólks til að standa vörð um persónulegt og listrænt frelsi kvikmyndagerðafólks.

Mike Downey verður gestur hátíðarinnar og tekur sjálfur við verðlaununum sem veitt verða í einkasamkvæmi á Port 9. Verðlaunin eru hönnuð af Lavaland Iceland.